Göngugötur í miðborginni á Airwaves

Neðri hluta Laugavegar verður breytt í göngugötu yfir Airwaves hátíðina …
Neðri hluta Laugavegar verður breytt í göngugötu yfir Airwaves hátíðina ásamt fleiri götum í miðborginni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkrum götum miðborgar Reykjavíkur verður breytt í göngugötur meðan tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fer fram dagana 1. til 5. nóvember. Um er að ræða neðri hluta Laugavegs frá Vatnsstígi og niður, neðsta hluta Skólavörðustígs, Pósthússtræti að mestu og Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstrætis sem liggja við Ingólfstorg. Þetta var samþykkt í borgarráði í gær.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að búist sé við því að 7.500 gestir kaupi miða á hátíðina, þar af margir erlendir gestir. Þá verði fjölmargir „off-venue“ tónleikar um alla miðborg á þessum dögum sem eru opnir öllum. Er því gert ráð fyrir mun fleiri gestum á hátíðina en þeim sem hafa keypt miða. 

FM Belfast á Iceland Airwaves í fyrra. Fjöldi gesta kemur …
FM Belfast á Iceland Airwaves í fyrra. Fjöldi gesta kemur á hátíðina ár hvert og þá hafa „off-venue“ tónleikar notið aukinnar vinsælda undanfarin ár. Freyja Gylfa

Reykjavíkurborg hefur frá því árið 2015 boðið upp á göngugötur á nokkrum svæðum líkt og nú er gert, en í tilkynningunni segir að hátíðin setji skemmtilegan svip á borgina og henni fylgi fjölbreytt mannlíf.

Eftirtaldar götur verða göngugötur á meðan Iceland Airwaves hátíðin stendur yfir.

  • Laugavegur og Bankastræti, frá Vatnsstíg að Þingholtstræti.
  • Skólavörðustígur, milli Bergstaðastrætis og Bankastrætis
  • Pósthússtræti, milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
  • Austurstræti auk Veltusunds og Vallarstrætis

Vöruafgreiðsla frá bílum verður leyfð í göngugötunum frá kl. 7 – 11 á morgnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert