„Hömlur á fréttaflutningi eru slæmar fyrir lýðræðið, það er alveg klárt, en við verðum að muna að málið snýst ekki bara um réttindi fjölmiðlamanna heldur um réttindi almennings og mikilvægi þess að stíga gætilega til jarðar í aðdraganda kosninga, “ segir Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Arnar er mótfallinn hugmyndum um setningu bráðabirgðalaga til að bregðast við lögbanninu sem lagt var á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media úr gögnum Glitnis þannig að aðilar gætu borið ákvörðun sýslumanns um lögbann undir dómstóla. Slík nálgun væri að hans mati óheppileg út frá sjónarmiðum um þrígreiningu ríkisvalds. „Ákvörðun sýslumanns er stjórnvaldsathöfn sem sæta á endurskoðun hjá dómstólum en ekki löggjafanum. Löggjafinn getur ekki gripið inn í stjórnvaldsákvarðanir með bráðabirgðalögum,“ segir Arnar og bendir á að í hinu stóra samhengi sé þrígreining ríkisvalds lykilatriði lýðræðislegs stjórnarfars.
Frétt mbl.is Hægt væri að setja bráðabirgðalög
„Staðan sem er komin upp er mjög óheppileg fyrir lýðræðið og í raun alla þá sem tengjast málinu á einn eða annan hátt. En það er mikilvægt að muna að þegar óhöpp verða þá þurfum við að vanda okkur til að þau verði ekki að stórslysi. Þess vegna er brýnt að fara ekki á taugum og taka ákvarðanir í óðagoti. Löggjafarstarfið má ekki verða hroðvirknislegt og fara að bera merki um kaótísk vinnubrögð, það kemur niður á gæðum laganna og um leið réttaröryggi borgaranna.“
Í þessu samhengi minnir Arnar á að einungis nokkrar vikur eru síðan almennum hegningarlögum var breytt í miklu flýti í kjölfar umræðu um uppreist æru. Breytingarnar leiddu til þess að tómarúm myndaðist í lögunum og breytingarnar báru merki um uppnám og skort á yfirsýn. „Síðustu breytingar á almennum hegningarlögum fela í reynd í sér afturvirka lagasetningu og ganga gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Þær benda til þess að handhafar löggjafarvalds hafi misst kjarkinn gegn hamslausum pólitískum upphrópunum. Með þessu móti getur löggjafinn hreinlega teflt lýðræðislegu stjórnkerfi okkar í voða,“ segir Arnar.
Þrígreiningunni ætlað að verja fólk gegn alræðistilburðum
Arnar bendir jafnframt á það að með þingskaparlögum hafi verið settar reglur um meðferð þingmála og störf þingnefnda sem er ætlað að auka líkur á því að lögin í endanlegri mynd verði vönduð og taki tillit til allra viðeigandi sjónarmiða. „Með því að setja þingmál í slíkan fastan farveg er í reynd verið að styrkja löggjafarstarfið í þeim tilgangi að lög gangi ekki lengra en nauðsynlegt er og til að vernda það sem hlýtur að teljast leiðarljós stjórnskipunarinnar allrar, það er vernd einstaklingsins gegn misnotkun opinbers valds. Þetta eru meginreglur sem eiga að verja fólk gegn alræðistilburðum ríkisins. Þessa stóru mynd þurfum við ávallt að hafa fyrir augum.“
Viðkvæmur tímapunktur í stjórnmálum
„Það má öllum vera ljóst að við erum á mjög viðkvæmum tímapunkti í íslenskum stjórnmálum. Augljóslega getur sú staða komið upp að reglur teljist ekki lengur vera réttlátar eða viðeigandi. Í slíkum tilvikum getur löggjafinn brugðist við með því að laga reglur að nýjum viðhorfum, en það réttlætir ekki vikið sé frá meginreglum um þrígreiningu ríkisvalds og vandaða löggjöf“ segir Arnar. Að hans mati eru fyrrgreindar breytingar á lagaákvæðum um uppreist æru sorglegt dæmi um óðagot og möguleg áhrif lýðskrums. Þótt popúlismi eða lýðskrum þurfi ekki alltaf að vera neikvætt fyrirbæri, t.d. þegar slíkt verður til þess að knýja valdamenn til athafna, þá segir Arnar að við slíkar lagfæringar beri þeim sem fara með völd og ábyrgð „að virða lagasetningarferlið eins og það hefur mótast á grundvelli laga og venja. Í því felst meðal annars að handhafar löggjafarvaldsins þurfa að vera á varðbergi gagnvart þeim sem hæst hafa hverju sinni og láti ekki stjórnast af háreystinni einni með þeim afleiðingum að brotið sé gegn grundvallarmannréttindum.“
„Við höfum öll skuldbindingar gagnvart réttarríkinu. Ýmis konar álitaefni munu óhjákvæmilega vakna þar sem á þetta reynir. Atburðarásin hér er öll hin óheppilegasta og því miður einkennist margt í tilveru okkar af óhöppum. En sem ábyrgar manneskjur og borgarar og þingmenn verðum við að halda ró okkar og gæta þess að skapa ekki slæm fordæmi til framtíðar og bæta þar með gráu ofan á svart.“
Frétt mbl.is Lögbannsmál geta tekið nokkrar vikur