Áframhaldandi titringur á Suðurlandi

Skjálftinn í morgun fannst á Selfossi.
Skjálftinn í morgun fannst á Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg

Jörð skelfur enn á Suðurlandi, en rétt fyrir klukkan hálfníu í morgun kom skjálfti sem var 2,9 að stærð. Sá skjálfti fannst í Grímsnesi og á Selfossi. Skjálftahrina hefur verið í Suðurlandsbrotabeltinu frá því um kl. 16:00 í gær.

„Þetta er ekki hætt. Það dró svolítið úr hrinunni á miðnætti en það hefur þó verið viðvarandi virkni í nótt og svo núna klukkan rétt að verða hálfníu kom skjálfti sem var 2,9 að stærð,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Hann náði ekki þremur stigum, var rétt undir. Síðan hafa verið litlir skjálftar í kjölfarið, svo hrinan heldur áfram, en það er ekki alveg jafn mikill ákafi og í gærkvöldi. Þetta er allt á þessu sama svæði og í gærkvöldi,“ segir Sigurdís, en í gærkvöldi varð skjálfti sem var 3,4 að stærð.

Skjálftarnir hafa flestir verið á eins til þriggja kílómetra dýpi, sem er mjög grunnt, að sögn Sigurdísar.

„Þetta er mjög þekkt sprungusvæði og það gætu alveg komið stærri skjálftar, en svo gæti þessi hrina líka bara dáið út,“ segir Sigurdís, en Veðurstofan mun fylgjast vel með þróuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert