Pálmi Gestsson og María Thelma Smáradóttir, leikarar verksins Risaeðlurnar sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu, segja að mörg sendiherrahjón séu fyrirmyndirnar að persónum hins grátbroslega gamanleiks eftir Ragnar Bragason.
Pálmi segir að margir velti þessu fyrir sér og sumir segist kannast við ýmislegt í fari sendiherrans Elliða og konu hans, frú Ágústu, sem leikin er af Eddu Björgvinsdóttur. „Þetta er ekki farsi, þetta er svona grátbroslegt,“ sagði Pálmi um verkið í viðtali við Hvata og Rikku í Magasíninu á K100.
Frumsýning leikritsins síðastliðinn föstudag var stór stund fyrir Maríu Thelmu Smáradóttur en þetta var hennar fyrsta sýning á stóra sviði Þjóðleikhússins. „Ég er ekki lent eftir helgina, ég er alveg í skýjunum,“ sagði María Thelma. Hún er ánægð með samstarfið við höfund og leikstjóra verksins, Ragnar Bragason.
Leikararnir segja að Ragnar vinni mikið með spuna og þeir þekki því fyrst um sinn ekki allir forsendur persóna hvers annars. „Síðan hittumst við og byrjum bara í spuna og þá kviknar eitthvað, algjör galdur, og við erum að komast að fullt af hlutum í fyrsta skipti, þessi er með þessi leyndarmál og svo framvegis,“ sagði María Thelma.
Aðspurður um hvort verkið sé að hluta til ádeila á kostnað við rekstur íslenskra sendiráða erlendis sagði Pálmi að hann þurfi að passa sig hvað hann segi nú stuttu fyrir þingkosningar. Í þessum lokahluta þríleiks höfundar sé umfjöllunarefnið afkimi þjóðlífsins sem fáir þekkja. Pálmi sagði að verkið væri að einhverju leyti ádeila og bætti við brosandi: „Svo má líka alveg halda með þessu fólki.“
Við undirbúning verksins ræddi Pálmi við fólk sem þekkir til utanríkisþjónustunnar. Hann sagði að verkið fjallaði einnig um erfiðar hliðar lífs sendiherrahjóna sem hafa búið lengi fjarri heimahögum. „Ég held að þetta sé erfitt líf, þetta er fólk sem dvelur langdvölum í útlöndum með börnin sín, er einangrað, nær kannski aldrei að skjóta einhverjum rótum í því landi sem það er því það er kallað eftir fimm ár í eitthvað annað land,“ sagði Pálmi í viðtalinu sem er í heild sinni hér að neðan.