Leigubílareglur endurskoðaðar og horft til Uber

mbl.is/Jim Smart

Nýr starfshópur hefur verið skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að endurskoða regluverk um leigubifreiðaakstur. „Markmið verkefnisins er að leigubifreiðaakstur hér á landi stuðli að góðu aðgengi og hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur,“ auk þess að regluverkið sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í hópnum sitja Anna Sigríður Arnardóttir, lögfræðingur og jafnframt formaður hópsins og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur, Kristín Helga Markúsdóttir, deildarstjóri lögfræðideildar Samgöngustofu, Sæmundur Kr. Sigurlaugsson, fulltrúi frá Bifreiðastjórafélaginu Frama og Einar Árnason, fulltrúi frá Bifreiðastjórafélaginu Fylki.

Þá segir að hópurinn skuli einnig taka til athugunar önnur atriði sem ráðuneytinu hafa borist ábendingar um að nauðsynlegt sé að skoða, svo sem eftirlitsheimildir Samgöngustofu og viðurlagaákvæði, skilyrði atvinnuleyfis, t.d. hvað varðar aldur, orlofsréttindi, svokölluð ekkjuleyfi og fleira. Þá verði sérstaklega skoðað hvort rétt sé að gera ráð fyrir þjónustu á borð við Uber hér á landi og ef svo er hvaða breytingar séu nauðsynlegar á íslenskri löggjöf til að svo megi verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert