Fannst látinn á Sólheimasandi

mbl.is

Bandaríski ferðamaðurinn sem leitað var að á Sólheimasandi í dag fannst látinn við Jökulsá á Sólheimasandi nú síðdegis og hefur lögregla látið aðstandendur hans vita.

Greint hafði verið frá því að björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar hefðu verið kallaðar út um hádegi til að leita mannsins. Hann kom hingað til lands 12. október og átti bókað flug úr landi næsta dag, en skilaði sér ekki á áfangastað og hafði ekkert til hans spurst síðan.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt hvarf mannsins í gærkvöldi og fór lögreglan á Suðurlandi að svipast um eftir honum í morgun og fann bíl hans á bílastæði þar sem gengið er að flugvélaflakinu á Sólheimasandi.

Maðurinn fannst svo á þriðja tímanum í dag og var frekari leit þá afturkölluð.

Líkið verður flutt til Reykjavíkur þar sem kennslanefnd Ríkislögreglustjóra ásamt réttarmeinafræðingi og tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins munu sjá um að bera kennsl á hinn látna ásamt því að krufning mun leiða í ljós dánarorsök mannsins.  Ummerki á vettvangi benda ekki til þess að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.

Vís­ir greindi frá því í morg­un að maður­inn hét Jaspind­erjit Singh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert