Fólk af erlendum uppruna sætir misnotkun á vinnumarkaði

Mynd úr safni af byggingarframkvæmdum.
Mynd úr safni af byggingarframkvæmdum. mbl.is/Hanna

Lögreglu hafa borist mál þar sem starfsmenn fyrirtækja hafa verið án atvinnuleyfis, brotið hefur verið á atvinnuréttindum útlendinga og í einhverjum tilvikum hafa vaknað grunsemdir um vinnumansal. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kom út í dag.

Að sögn talsmanna Alþýðusambands Íslands, ASÍ, færist í vöxt að fólk af erlendum uppruna sæti misnotkun á vinnumarkaði. Í sumum tilvikum flokkist meðferð á vinnuafli undir glæpastarfsemi.

Starfsfólk búi við félagslega einangrun á mjög lágum launum og upplýsingum um lögbundin lágmarksréttindi á Íslandi sé vísvitandi haldið frá því. Þess þekkjast dæmi að innflutt vinnuafl sé látið borga fyrir að fá að vinna á Íslandi og getur það fallið undir brotastarfsemi.

Tíðni vinnumarkaðsafbrota helst að mestu í hendur við þann fjölda útlendinga sem er við störf hér á landi. Sumarið 2017 hafa útlendingar við störf á Íslandi aldrei verið fleiri. Undanfarin misseri hefur ríkt viðvarandi skortur á vinnuafli í landinu og því fylgja auknar kröfur gagnvart lögreglu og öðrum eftirlitsstofnunum á vinnumarkaði.

„Greiningardeild telur sýnt að skortur á eftirliti á þessu sviði sé beinlínis til þess fallinn að auka umfang „svartrar atvinnustarfsemi“ og vinnumarkaðsafbrota gagnvart aðfluttum.

Á hinn bóginn er þessi málaflokkur um margt flókinn og erfiður, ekki síst sökum menningarmunar, tungumálaörðugleika, sjálfboðavinnu og regluverks m.a. um svonefndar „starfsmannaleigur“ sem sífellt verða umsvifameiri á íslenskum vinnumarkaði.

Lögreglu er kunnugt um að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi stundi í einhverjum tilvikum „svarta atvinnu“ hér á landi. Í þessum tilvikum geta viðkomandi verið þolendur vinnumarkaðsafbrota og jafnvel sætt alvarlegri misnotkun.

Þá eru einnig vísbendingar um að einstaka atvinnurekandi sjái ódýrt vinnuafl í umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Í sumum tilvikum eru þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki með atvinnuleyfi. Þá eru lögreglu einnig kunnug dæmi þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd misnoti móttökukerfi hér á landi með því að leggja fram tilhæfulausar umsóknir og stunda „svarta atvinnu“ á meðan mál þeirra eru til umfjöllunar. Þess þekkjast dæmi að þeir sem leggja fram tilhæfulausar umsóknir dragi þær til baka áður en þær hljóta afgreiðslu. Dæmi eru um að viðkomandi fari af landi brott en snúi strax aftur til að stunda „svarta atvinnu“.

Ljóst er að í tilvikum sem þessum er hætta á misnotkun talsverð þar sem félagsleg staða viðkomandi er mjög veik. Jafnframt eru dæmi þessi til marks um skipulagða misnotkun á móttökukerfi vegna alþjóðlegrar verndar.

Á hinn bóginn er ekki öruggt að viðkomandi einstaklingar beri ábyrgð á þeirri misnotkun í öllum tilvikum. Vera kann að skipulögð glæpstarfsemi á Íslandi og í Evrópu misnoti markvisst þessa einstaklinga á þennan veg,“ segir í skýrslu ríkislögreglustjóra.

Landamæraeftirlit í Svíþjóð.
Landamæraeftirlit í Svíþjóð. AFP

Þar er einnig fjallað um þá sem eru stöðvaðir í Leifsstöð fyrir að hafa framvísað ólögmætum skilríkjum. Flestir þeirra ætla sér aðeins að millilenda hér og eru að koma frá öðrum Schengen-ríkjum.

Af þeim 34 einstaklingum sem framvísuðu ólögmætum skilríkjum í flugstöð Leifs Eiríkssonar  fyrri hluta árs 2017 ferðaðist 21 frá norrænu ríki, þar af 11 frá Svíþjóð. Sams konar mynstur gildir um árið 2016 en þá ferðaðist 31 af 62 frá norrænu ríki til Íslands.

„Þeim einstaklingum sem koma við sögu hjá flugstöðvardeild lögreglunnar í FLE án skilríkja eftir flugferð frá öðrum Schengen-ríkjum fer einnig hratt fjölgandi. Talið er að margir þessara einstaklinga hafi skilríki á upphafsstað en losi sig við þau á leiðinni til Íslands.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru almennt í viðkvæmri stöðu. Oft eru þeir háðir smyglurum í tekjuöflun sinni. Þeir hafa enga hagsmuni af því að vitna gegn smyglurunum meðal annars vegna þess að aðrir fjölskyldumeðlimir gætu átt eftir að nýta þjónustu þeirra.

Önnur ástæða gæti verið ótti vegna ógnana smyglhringja. Þetta gerir rannsóknir mála flóknari en ella þar sem ekki er unnt að byggja á vitnisburðum þolenda,“ segir í skýrslu greiningardeildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka