Ísland áfangastaður fyrir mansal

Mansal er einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum.
Mansal er einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum. AFP

Grunur leikur á að erlendir smyglhringir hafi Ísland sem áfangastað. Þeir sem stunda smygl á fólki eru fljótir að laga starfsemi sína að aðstæðum hverju sinni. Öryggi flóttamanna er oft á tíðum fórnað fyrir aukinn hagnað og til að minnka hættuna á uppljóstrun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Í hluta tilfella sem upp hafa komið í Evrópu er vitað til þess flóttafólk hafi verið þvingað til afbrota eða í „svarta atvinnustarfsemi“ til þess að borga skuld sína við smyglarana. Þetta rímar við upplýsingar stofnana Sameinuðu þjóðanna sem segja í skýrslu frá september 2017 að ungt fólk sé krafið um 800 - 4.000 evrur (100.000 - 500.000 ÍSK) fyrir flutning yfir Miðjarðarhaf til Evrópu.

Fólkið skuldi því iðulega smyglurum þegar það kemst á áfangastað. Þær skuldir innheimti smyglarar af fullri hörku.

Lögregla telur að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal og horfir einkum til vinnumansals innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu. Fáar kærur berast í þessum málaflokki og er það í samræmi við eðli brotanna en hefur lítið forspárgildi fyrir umfang starfseminnar.

Tugir mansalmála komið til lögreglu undanfarin 2 ár

Reynsla erlendis frá sýnir að fátítt er að fórnarlömb leiti til lögreglu. Byggir mat lögreglu því að mestu á upplýsingum og ábendingum en ekki kærum. Frá 2015 hefur um tugur mála komið á borð lögreglu þar sem grunsemdir hafa beinlínis vaknað um mansal.

Í meirihluta mála hefur rannsókn ýmist verið hætt eftir að framburður var dreginn til baka eða grunur reyndist ekki á rökum reistur. Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun hafa einnig upplýst lögreglu um grunsemdir sínar um mansal.

Mál gegn manni sem var grunaður um mansal í Vík …
Mál gegn manni sem var grunaður um mansal í Vík í Mýrdal var fellt niður.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur brugðist við þeim öru breytingum sem orðið hafa með því að leggja aukna áherslu á málaflokkinn meðal annars með skipulagsbreytingum og myndun sérstaks mansalsteymis. Fyrir liggja verklagsreglur ríkislögreglustjóra varðandi mansalsbrot, segir í skýrslu greiningardeildar.

Greiddu 2 þúsund evrur fyrir smyglið með Norrænu

Ólöglegir fólksflutningar og smygl á fólki eru liður í umsvifum skipulagðra glæpasamtaka. Mafíur sem starfa yfir landamæri og hafa komið sér fyrir í mörgum ríkjum Evrópu eru umsvifamiklar á þessu sviði.

Lögregla hefur vitneskju um að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til landsins með skipulögðum hætti. Sem dæmi má nefna að árið 2016 komu fjórir laumufarþegar með Norrænu og sóttu um alþjóðlega vernd.

Þeir kváðust hafa greitt ónefndum aðilum í Danmörku 2.000 evrur (249 þúsund krónur) fyrir að smygla þeim um borð í ferjuna í Hirtshals, segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Nígerískar konur sem eru fórnarlömb mansals hafa flúið hingað

„Umfang ólöglegra fólksflutninga og smygls á fólki telst þó óþekkt. Aukin frumkvæðislöggæsla er til þess fallin að bregða ljósi á þann fjölda einstaklinga sem smyglað er til landsins ár hvert.

Þekkt er á Norðurlöndum og víðar í Evrópu að glæpasamtök nýti sér lögleg/opinber kerfi fyrir starfsemi sína. Þetta getur átt við um bótakerfi, vinnumiðlanir og móttöku flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Í ágústmánuði 2017 var upplýst um mál sem fellur ágætlega til að bregða ljósi á slíka starfsemi og hvernig hún er skipulögð. Þá upplýsti Evrópulögreglan (Europol) að lögreglan á Spáni hefði, í samstarfi við finnsku lögregluna, handtekið 25 manns og bjargað 16 konum sem neyddar höfðu verið í vændi.

Skipulögð glæpasamtök höfðu neytt konurnar, sem flestar komu frá Nígeríu og hafði verið smyglað til Spánar í gegnum Ítalíu, til að stunda vændi í nokkrum spænskum borgum.

Starfseminni var stjórnað frá Finnlandi og byggði á tengslum við einstaklinga í upprunaríkjum kvennanna. Konurnar voru einnig látnar skrá sig hjá yfirvöldum sem umsækjendur um alþjóðlega vernd með fölskum pappírum sem glæpasamtökin útveguðu þeim, ef svo færi að lögregla hefði afskipti af þeim við iðju sína.

Glæpasamtökin skipulögðu þannig alla þætti starfseminnar; fundu fórnarlömbin í Nígeríu, smygluðu þeim til Ítalíu í gegnum Níger og Líbýu, fölsuðu skjöl til að gera fórnarlömbunum kleift að sækja um alþjóðlega vernd og fluttu þau loks til Spánar þar sem þau voru neydd í vændi,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

„Á undanförnum árum hafa leitað verndar hér á landi konur frá Nígeríu sem vitað er að hafa stundað vændi í Evrópu og grunur leikur á að séu fórnarlömb mansals. Tengsl nígerískra glæpahópa við Ítalíu eru alþekkt og konur þessar höfðu sömuleiðis tengingu við Spán. 

Í viðtölum við lögreglu hafa konur frá Afríku sem leituðu hér alþjóðlegrar verndar upplýst að þær hafi verið neyddar í vændisstarfsemi á meginlandi Evrópu áður en þær komu til Íslands.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í janúarmánuði 2017 vaknaði grunur hjá lögreglunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að verið væri að smygla fólki um Ísland áleiðis til Bandaríkjanna. Upplýsingum um meintan geranda auk annarra gagna var miðlað til finnsku landamæralögreglunnar. Voru þetta fyrstu upplýsingar sem bárust Finnum varðandi meintan geranda.

Finnska landamæralögreglan rannsakaði málið í samstarfi við Evrópulögregluna, lögregluna á Íslandi og bandaríska landamæraeftirlitið, U.S. Border Patrol (USBP) og bandaríska heimavarnareftirlitið, U.S. Homeland Security Investigation (HSI).

Grunur landamæralögreglunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar reyndist réttur og þann 10. október 2017 var skipulagður glæpahópur sem lagði stund á smygl á fólki upprættur. Húsleitir fóru fram á fjórum stöðum í Finnlandi (Helsinki, Vantaa og Tampere og voru fjórir meðlimir hópsins handteknir og ákærðir fyrir að greiða fyrir ólöglegum innflutningi flóttafólks frá Suður-Evrópu til Finnlands og áfram til Bandaríkjanna í gegnum Ísland og Mexíkó. Við húsleitirnar fundust m.a. þúsundir evra í reiðufé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka