Panta kynferðisbrot í beinni

Dæmi er um að fólk panti kynferðisbrot í beinni útsendingu.
Dæmi er um að fólk panti kynferðisbrot í beinni útsendingu. mbl.is/Golli

Kynferðisbrot eru bæði fólgin í líkamlegu og stafrænu ofbeldi þ.e.a.s. þar sem internet og samfélagsmiðlar eru notaðir s.s. til myndbirtingar og jafnvel útsendinga, segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Kynferðisafbrotamenn nýta internetið til að leita fórnarlamba á skipulegan máta. Þeir setja upp huldunet þar sem upplýsingum og myndefni er dreift eða þar sem árásir eru skipulagðar bæði í heimalandi viðkomandi eða erlendis.

„Á Norðurlöndum er almennt talið að einungis hluti kynferðisbrota sé tilkynntur lögreglu. Sérstakar áhyggjur vekja afbrot þar sem kaupandi „pantar“ kynferðisafbrot í beinni útsendingu (e. Live streaming) og kúgun (t.d. fjárkúgun) með hótun um myndbirtingu.

Vitað er um slíkar „pantanir“ á Norðurlöndum og óttast lögregla að þessi brotastarfsemi sé að stórum hluta ótilkynnt. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tengsl skipulagðrar brotastarfsemi í kynferðisbrotum á Íslandi,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Lögreglan telur að erlendir aðilar kunni að hafa nýtt sér internetið til að fremja stafræn kynferðisbrot með skipulögðum hætti. Lögregla hefur upplýsingar um margvísleg blygðunarsemisbrot en ekki er að sjá skipulagða brotastarfsemi í þeim. Í einu umdæmi lögreglu voru á árunum 2015-2017 kærð 18 kynferðisbrot og vekur athygli að ekkert þeirra tengist interneti eða tölvutækni á nokkurn hátt.

Færri kæra kynferðisbrot en önnur brot

Kynferðisbrot, stafræn sem ekki, eru viðkvæmur málaflokkur og alkunna er að kæruhlutfall er lægra á þessu sviði afbrota en flestum öðrum. Í rannsókn sem embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu framkvæmir árlega er spurt hvort fólk hafi orðið fyrir kynferðisbroti árið á undan og ef svo er, hvort þau hafi tilkynnt brotið. Aðeins lítill hluti fólks tilkynnir kynferðisbrot til lögreglu, segir í skýrslunni.

Lögreglu hafa þó borist tilkynningar frá fólki sem birt hefur nektarmyndir af sér á internetinu/samfélagsmiðlum og síðar borist hótanir um fjárkúgun þ.e. að viðkomandi myndir verði birtar opinberlega, sendar ættingjum, mökum o.s.frv.

„Brot þessarar tegundar eru sérlega erfið viðfangs m.a. vegna þess að hýsing gagna er oftar en ekki utan landsteina, umræður/birtingar eru á lokuðum svæðum og lagaumhverfið flókið.

Lögreglu er kunnugt um tilfelli þess að í ákveðnum aldurshópum og innan ákveðinna samfélagsmiðla tíðkist að dreifa viðkvæmum myndum sem í upphafi voru teknar án vitundar eða með samþykki þolanda sem síðan er fenginn/þvingaður til að senda fleiri myndir sem ganga áfram innan hópsins.

Þarna kann því að vera fyrir hendi skipulag og sameiginleg framkvæmd á broti/-um. Miðlun slíks efnis kann að fela í sér skipulagða brotastarfsemi sem og hótanir og þvinganir gagnvart fórnarlambi.

Varnir gegn stafrænu kynferðisofbeldi eiga það sameiginlegt með vörnum gegn tölvubrotum að vitundarvakning meðal almennings, og þá ekki síst ungmenna, er ein áhrifaríkasta leiðin til að auka öryggi notenda og fyrirbyggja afbrot. Einnig er frumkvæðislöggæsla lögreglu talin mikilvæg á þessu sviði.

Á hinum löndunum á Norðurlöndum hefur verið farin sú leið að stofna sérstakar deildir sem annast rannsóknir og forvarnir á þessu sviði,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka