Sprenging í vændi á Íslandi

Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að skipulagt vændi hafi aukist …
Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að skipulagt vændi hafi aukist stórlega frá 2015.

Lögregla telur engan vafa leika á því að réttnefnd „sprenging“ hafi orðið í framboði vændis hér á landi á síðustu 18 mánuðum. Ekki hafa verið til rannsóknar mörg mál á tímabilinu m.a. sökum manneklu og afleiddrar nauðsynlegrar forgangsröðunar lögreglu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Fjöldi skráðra vændisbrota hjá lögreglu, árin 2006-2016.
Fjöldi skráðra vændisbrota hjá lögreglu, árin 2006-2016. Skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra

Þvinga flóttafólk til afbrota og minnka eigin áhættu

Í stærstu borgum Evrópu eru glæpahópar tengdir ákveðnum þjóðarbrotum áberandi í skipulagðri vændisstarfsemi. Rúmenskir og albanskir hópar eru þar umsvifamiklir en götuvændi er að stórum hluta í höndum nígerískra glæpamanna. Þeir hópar sem skipuleggja vændi tengjast margs konar annarri glæpastarfsemi í Evrópu s.s. sölu eiturlyfja, peningaþvætti og skipulögðum þjófnaði. Með því að þvinga flóttafólk til afbrota geta þeir sem í raun standa að baki skipulagðri glæpastarfsemi minnkað eigin áhættu.

Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að skipulagt vændi hafi aukist stórlega frá 2015 hér  landi. Líkt og sagði í skýrslu greiningardeildar það ár er sýnt að þessi þróun helst í hendur við fjölgun ferðamanna og uppgang í efnahagslífi þjóðannar. Lögreglan telur að hluti þessarar starfsemi tengist án vafa skipulögðum glæpasamtökum, segir í skýrslu greiningardeildar. Oft tengist vændið erlendum skipulögðum glæpahópum sem aftur kunni að reiða sig á aðstoð fólks og aðstöðu hér á landi.

Sala vændis fer m.a. fram innan lokaðra hópa á samfélagsmiðlum, …
Sala vændis fer m.a. fram innan lokaðra hópa á samfélagsmiðlum, líkt og sala fíkniefna. AFP

Vændið á samfélagsmiðlum líkt og fíkniefnin

Götuvændi er lítt sjáanlegt á Íslandi en sala vændis fer m.a. fram innan lokaðra hópa á samfélagsmiðlum, líkt og sala fíkniefna.

Síðustu tvö ár hefur fjölgað mjög vændisauglýsingum á netsíðum og samfélagsmiðlum sem beint er að Íslandi. Meginþorri þeirra kvenna sem þar auglýsa/eru auglýstar er af erlendu bergi brotinn og eru stúlkur frá Ungverjalandi og Rúmeníu um þessar mundir (sumarið 2017) áberandi þótt vissulega sé þar einnig íslenskar konur að finna.

„Listrænn“ dans í þremur klúbbum hér á landi

Erlendis er þekkt að vændisstarfsemi fari fram í næturklúbbum, einkaklúbbum og svonefndum „súludansstöðum“ þar sem nektardans fer fram. Viðskiptin fara fram á stöðunum en kaupendum er síðan vísað á húsnæði annars staðar þar sem vændið fer fram. Er þá einkum um að ræða gistiheimili eða íbúðir sem eru leigðar til starfseminnar.

Þrír þekktir næturklúbbar eru starfræktir á höfuðborgarsvæðinu þar sem svokallaður …
Þrír þekktir næturklúbbar eru starfræktir á höfuðborgarsvæðinu þar sem svokallaður „listrænn dans“ fer fram. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þrír þekktir næturklúbbar eru starfræktir á höfuðborgarsvæðinu þar sem svokallaður „listrænn dans“ fer fram. Íslenskar stúlkur eru þar í miklum minnihluta meðal dansaranna. Líklegt er að sumar þeirra erlendu kvenna sem stunda vændi séu sendar um lengri eða skemmri tíma til landsins og að baki búi nauðung, líkt og þekkt er erlendis t.a.m. í Danmörku.

Telur lögreglan að hluti þessarar vændisstarfsemi tengist án vafa skipulögðum glæpasamtökum. Starfsemin ber merki mansals í mörgum tilvikum.

Grunur leikur á að í einhverjum tilvikum fylgi erlendir karlmenn konunum og hafi hugsanlega með þeim eftirlit á meðan þær dveljast hér á landi. Konurnar búa yfir íslenskum símanúmerum við komuna til landsins og hafa aðstöðu í leigugistingu.

Vísbendingar eru um að einhverjar kvennanna njóti aðstoðar og milligöngu fólks sem búsett er hér á landi. Vændi virðist því að stærstum hluta borið uppi af einstaklingum af erlendum uppruna sem koma til landsins sem ferðamenn, oft í skamman tíma,“ segir í skýrslunni.

Virkt lögreglueftirlit með ferðamönnum/útlendingum á Íslandi í samræmi við inntak Schengen-samstarfsins er takmarkað einkum sökum manneklu.

Tollgæslan hefur eftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og reglulega koma upp tilvik þar sem grunur leikur á að tilgangur með komu til landsins sé að stunda vændi. Í einhverjum tilvikum hefur vaknað grunur um að þeir einstaklingar kunni að vera fórnarlömb mansals.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka