Tugir hafa látist á 3 árum

Heróíns hefur ekki enn orðið vart á Íslandi. Ef og …
Heróíns hefur ekki enn orðið vart á Íslandi. Ef og þegar það gerist munu það teljast þáttaskil. AFP

Greiningardeild embættis ríkislögreglustjóra telur líklegt að neysla á sterkum fíkniefnum muni aukast hér á landi á næstu árum. Aukin neysla sterkra verkjalyfja, sem innihalda ópíumafleiður, og sterkra eiturlyfja hefur kostað tugi manna lífið hér á landi á síðustu þremur árum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu deildarinnar.

Erlendir glæpahópar, einkum frá löndum Balkanskaga, eru umsvifamiklir á fíkniefnamörkuðum Norðurlanda. Albanska mafían er t.a.m. talin ráðandi á heróín-markaðnum. Sérstök ástæða er til að fylgjast grannt með þróun mála á þessu sviði í nágrannaríkjunum.

„Heróíns hefur ekki enn orðið vart á Íslandi. Ef og þegar það gerist munu það teljast þáttaskil. Á Íslandi hafa þær breytingar nú orðið að kristallað metamfetamín er á markaði auk mjög sterkra verkjalyfja sem innhalda ópíumafleiður.

Á síðustu misserum hefur réttnefndur faraldur í neyslu sterkra verkjalyfja sem innihalda ópíóíð eða ópíumafleiður riðið yfir Bandaríkin. Þessi snögga aukning í neyslu sterkra verkjalyfja er talin einn stærsti vandi sem Bandaríkin glíma við á sviði ávana- og fíkniefna.

Reynslan Bandaríkjamanna er sú að neytendur sterkra verkjalyfja leiðast oft út í neyslu ódýrari fíkniefna/eiturlyfja s.s. heróíns,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

AFP

Tollstjóri leggur reglulega hald á sterk verkjalyf sem reynt er að smygla til landsins. „Þegar haft er í huga það sem ritað er hér að framan má telja líkur á að neysla sterkari efna muni, þegar horft er til næstu ára, aukast og ástæða er til að hafa áhyggjur af því að heróín nái fótfestu á Íslandi.“

Glæpamenn í vinnu hjá stjórnvöldum

Í ljós kom að albanskir glæpahópar höfðu verið ráðnir sem …
Í ljós kom að albanskir glæpahópar höfðu verið ráðnir sem verktakar við málningarvinnu m.a. fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir. AFP

Í skýrslunni er sjónum meðal annars beint að ólöglegri starfsemi í byggingariðnaði og fjallað um norskan byggingariðna sem komu fram í bók eftir þekktan norskan blaðamann, Einar Haakaas, sem kynnti sér sérstaklega umsvif glæpahópa frá Albaníu og Kósovó á sviði málningarþjónustu í Noregi.

„Í ljós kom að albanskir glæpahópar höfðu verið ráðnir sem verktakar við málningarvinnu m.a. fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir. Höfundur segir að með þessu móti hafi albönskum glæpahópum lánast að flytja gríðarlegar fjárhæðir úr landi.

Þessi starfsemi byggist m.a. á flóknu kerfi undirverktaka og aðstoðarmanna sem gerir glæpahópunum kleift að stunda undirboð, greiða fyrir „svarta atvinnustarfsemi“ í reiðufé, stunda skattsvik, skjalafals og þiggja m.a. endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði vegna falsaðra reikninga.

Vitað er að albanskir hópar eru mjög öflugir í heimalandinu og ráða þar yfir fyrirtækjum og eignum. Albanskir glæpahópar í Noregi tengjast einnig smygli á fíkniefnum, mansali og vændi. Mikið ofbeldi tengist iðulega starfsemi skipulagðra albanskra glæpahópa,“ segir í skýrslunni.

Svo nefndar starfsmannaleigur auka flækjustig og ógagnsæi

Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur ástæðu til að staldra við það sem rakið hefur verið hér að framan, einkum þróun á fíkniefnamarkaði, mansal og vinnumarkaðsafbrot.

„Á Íslandi ríkja nú um stundir aðstæður sem fallnar geta verið til þess að skipulögð glæpastarfsemi eflist. Útlendu verkafólki fjölgar hratt og ítrekað eru sagðar fréttir í fjölmiðlum um félagsleg undirboð, slæman aðbúnað og önnur réttindabrot gegn vinnulöggjöf.

Svonefndar „starfsmannaleigur“, innlendar sem erlendar, og undirverktakar auka flækjustig og ógagnsæi með þeim afleiðingum m.a. að eftirlit verður erfiðara og þyngra í vöfum. Mikil eftirspurn eftir vinnuafli eykur hættu á mansali og vinnumarkaðsafbrotum. Gríðarlegur vöxtur í byggingariðnaði og ferðaþjónustu skapar margvíslega hættu á að skipulögð glæpastarfsemi geti hagnýtt sér aðstæður og umsvif með áþekkum hætti og þekkist á Norðurlöndum.“

Skipulögð glæpastarfsemi hefur grafið um sig og er umfangsmikil á Norðurlöndum. Áhrif þessa á samfélagið eru margvísleg og öll neikvæð. Það á við um tíðni afbrota, alvarleika þeirra, áhrif á viðskiptalíf og vinnumarkað þar undir skekkt samkeppnisstaða og fjártjón fyrirtækja, tekjumissir hins opinbera auk þess sem skipulagðri brotastarfsemi fylgir ofbeldi sem verður til þess að draga almennt úr öryggi í samfélaginu.

Glæpahópar og gengi berjast í mörgum tilvikum um yfirráðasvæði og markaði. Síðustu misserin hafa fréttir af slíkum átökum á Norðurlöndum – einkum í Svíþjóð og Danmörku – verið fyrirferðarmiklar.

Þess sjást merki að óþol gagnvart gengjum og glæpum fari vaxandi meðal almennings í þessum ríkjum og kröfur um öryggi og öflugri viðbrögð yfirvalda magnast.

Flestir íbúarnir jaðarsettir þjóðfélagshópar

„Hverfi og götur í stærri borgum Norðurlanda bera þess víða merki, að margra mati, að félagsleg aðlögun hafi mistekist og aðlögun innflytjenda að norrænum samfélögum hafi í mörgum tilvikum ekki verið í samræmi við vonir og yfirlýsta stefnu stjórnvalda.

Margir áhrifaþættir eru þar á ferð sem erfitt er að stjórna í frjálsu samfélagi. Þess þekkjast dæmi frá Norðurlöndum að stórir hlutar hverfa séu byggðir innflytjendum frá ákveðnum svæðum heims.

Í þeim tilvikum myndast einsleit nærsamfélög að mestu byggð jaðarsettum þjóðfélagshópum. Í Svíþjóð kallast slík svæði „utsätte områder“ („viðkvæm svæði“) og þar hafa gengi og glæpahópar myndast umfram það sem gerist utan þessara svæða.

Ein ástæða þess að „viðkvæm svæði“ myndast er sú að …
Ein ástæða þess að „viðkvæm svæði“ myndast er sú að innflytjendur leita, eðlilega, stuðnings, innan þess þjóðarbrots sem þeir tilheyra og fyrir er í viðtökuríkinu. / AFP PHOTO / TT News Agency / Adam IHSE / Sweden OUT AFP

Málaflokkurinn er viðkvæmur, ekki síst í pólitísku tilliti og kallar á umfangsmikil og heildstæð viðbrögð.

Ein ástæða þess að „viðkvæm svæði“ myndast er sú að innflytjendur leita, eðlilega, stuðnings, innan þess þjóðarbrots sem þeir tilheyra og fyrir er í viðtökuríkinu. Þannig verða til hverfi og svæði tiltekinna þjóðarbrota sem hafa tilhneigingu til að einangra sig, m.a. vegna þess að hópar viðtökuríkisins draga sig frá þeim eða innflytjendur kjósa einfaldlega að samlagast ekki því nýja samfélagi sem þeir nú tilheyra.

Við þetta bætist að staða innflytjenda er nánast undantekningalaust veikari en þeirra sem fyrir eru og veldur þar miklu t.a.m. tungumál, menningarlæsi og margir aðrir félagslegir þættir.

Hættan á félagslegri einangrun og ónógum framgangi innan samfélagsins er því talsverð og hefur í tilvikum margra í för með sér brostnar væntingar og vonleysi. Slík félagsleg staða getur auðveldlega leitt fólk á braut afbrota og gengjastarfsemi,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra. 

Í nýlegri skýrslu sænsku lögreglunnar um „viðkvæm svæði“ kemur fram að talið er að um 200 manns tengist skipulagðri glæpastarfsemi í Malmö einni. Ólga vegna ofbeldisverka glæpagengja fer vaxandi í Kaupmannahöfn. Í ágústmánuði 2017 efndu íbúar í Nörrebro-hverfi til mótmæla vegna skotbardaga glæpamanna og þess almenna óöryggis sem almenningur þar finnur fyrir. Í Nörrebro-hverfi voru tæplega 30 skotárásir skráðar á tveggja mánaða tímabili sumarið 2017 og særðust óbreyttir borgarar í þeim, segir enn fremur í skýrslunni sem hægt er að lesa í heild hér. 

Í Nörrebro-hverfi voru tæplega 30 skotárásir skráðar á tveggja mánaða …
Í Nörrebro-hverfi voru tæplega 30 skotárásir skráðar á tveggja mánaða tímabili sumarið 2017. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka