Fréttamenn dæmdir til að greiða miskabætur

mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fjóra fréttamenn 365 til að greiða tveimur karlmönnum miskabætur vegna umfjöllunar í miðlum 365 um Hlíðamálið svokallaða, en mennirnir voru sakaðir um kynferðisbrot árið 2015.

Þá hefur héraðsdómur dæmt nokkur ummæli sem birtust m.a. í Fréttablaðinu dauð og ómerk m.a.: „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“.

Málið varðar umfjöllun fréttamiðla 365 af ætluðum kynferðisbrotum mannanna gegn tveimur konum sem áttu að hafa verið framin í október 2015. Mál mannanna voru rannsökuð en þau síðan felld niður.

Héraðsdómur dæmdi Nadinu Guðrúnu Yaghi til að greiða hæstu bæturnar, eða hvorum manni um sig 700.000 kr. Mennirnir fóru fram á að hún greiddi hvorum þeirra 10 milljónir króna í bætur.

Mennirnir höfðuðu mál á hendur fréttamönnunum fjórum og 365 miðlum var stefnt til réttargæslu. Þeir kröfðust þess að 32 ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk, en tvenn ummæli birtust í fréttum Bylgjunnar 5. nóvember 2015. Frekari umfjöllun varð svo í Fréttablaðinu, Stöð 2, á vefmiðlinum Vísi og á Bylgjunni næstu daga. 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að mennirnir ættu rétt á miskabótum vegna ærumeiðandi aðdróttana sem fælust í ummælunum sem hafa nú verið ómerkt. Annar mannanna átti auk þess rétt til miskabóta úr hendi eins af fréttamönnunum vegna brots á friðhelgi einkalífs hans. 

Ennfremur segir að umfjöllunin hafi haft víðtæk áhrif á mennina sem greindu frá því fyrir dómi að þeir hefðu hrökklast af landi brott í kjölfarið og flosnað bæði upp úr vinnu og námi. 

„Þrátt fyrir að stefnendur hafi aldrei verið nafngreindir í framangreindri umfjöllun þykja stefndu með framsetningu þeirra ummæla, sem fallist hefur verið á að ómerkja, hvorki hafa sýnt nægjanlega hófsemi né þá ábyrgð sem þeim var skylt og þannig ekki uppfyllt þær kröfur sem gera má til þeirra um vandaðan og hlutlausan fréttaflutning. Þá verður ekki séð að lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu eða upplýsingaréttur almennings hafi krafist þessarar framsetningur þrátt fyrir mikilvægi þess að fjalla almennt um rannsókn sakamála, þ.m.t. kynferðisafbrota, í fjölmiðlum,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá er það mat dómsins að gengið hafi verið of nærri mönnunum í umfjölluninni og friðhelgi einkalífs þeirra ekki virt.

Dómur héraðsdóms

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka