Persónuvernd hefur úrskurðað um það að KFC hafi brotið gegn lögum um persónuvernd með því að veita manni aðgang að öryggismyndavélum fyrirtækisins en hann tók myndir af upptöku öryggismyndavélar á símann sinn og setti færslu á facebook þar sem hann sagði konu sem greip úlpu af barni í misgripum þjóf.
Persónuvernd barst kvörtun 10. maí síðastliðinn vegna vinnslu persónuupplýsinga sem áttu uppruna sinn að rekja í öryggismyndavélakerfi KFC en í kvörtuninni sagðist kvartandi hafa tekið úlpu í misgripum á veitingastað KFC þar sem hún taldi úlpuna tilhera syni sínum þar sem hún hafi líkst hans úlpu en síðar kom í ljós að sonur kvartanda kom úlpulaus inn á staðinn.
Einnig segir í kvörtuninni að nafngreindur maður hafi fengið aðganga að öryggismyndavélakerfi fyrirtækisins, tekið myndir á símann sinn og sett færslu á Facebook þess efnis að kvartandi væri þjófur og að hún hefði stolið úlpu sonar hans. Þá segir að kvartandi hafi ekki áttað sig á mistökum sínum fyrr en nokkru síðar þegar henni hafi farið að berast símtöl og skilaboð vegna birtingar umræddra mynda og Facebook-færslunnar. Hafi færslunni verið deilt um 150 sinnum og hún orðið fyrir óvæginni umfjöllun í athugasemdum við færsluna.
Persónuvernd gaf KFC kost á að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar en í svari KFC segir að faðirinn hafi gengið hart eftir því að fá aðgang að öryggismyndavélum fyrirtækisins til að komast að því hvað hefði orðið um úlpuna. Stjórnandi á vakt hafi á endanum orðið við þeirri beiðni og veitt honum aðgang að upplýsingunum. Hann hafi þá tekið myndir en verið tjáð að hann mætti undir engum kringumstæðum birta myndirnar opinberlega heldur væru þær eingöngu fyrir lögregluna. Hann hafi aftur á móti birt myndirnar á Facebook en KFC setti sig strax í samband við hann og tjáði honum að hann væri að brjóta lög og yrði að taka efnið út. Ekki barst svar við skilaboðum KFC í fjórar klukkustundir en þá hafði úlpan fundist.
Að auki segir í bréfi KFC ehf. að fyrirtækið harmi þennan atburð og að í kjölfar hans hafi verið skerpt á vinnureglum um öryggismyndavélakerfi þess. Þá hafi verið send út tilkynning til allra sem hafi aðgang að öryggismyndavélakerfunum, en þar segi m.a. að ekki megi undir neinum kringumstæðum veita utanaðkomandi aðilum aðgang að þeim og að alls ekki megi afhenda, afrita eða dreifa vöktunarefni.
Í úrskurðarorði Persónuverndar segir að meðferð á upptöku úr öryggismyndavélakerfi KFC hafi ekki verið í samræmi við lög um persónuvernd og að KFC skuli eigi síðar en 15. nóvember senda Persónuvernd verklagsreglur um hvernig fyrirtækið muni tryggja að óviðkomandi verði ekki veittur aðgangur að efni sem safnast við rafræna vöktun.