Gæsluvarðhald yfir Sveini Gesti Tryggvasyni, sem ákærður er fyrir að hafa ráðið Arnari Jónssyni Aspar bana með stórfelldri líkamsárás í Mosfellsdal 7. júní síðastliðinn, hefur verið framlengt um fjórar vikur og verður Sveinn Gestur því í varðhaldi til 23. nóvember næstkomandi.
Krafa um framlengingu var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag kl. 15.
Aðalmeðferð í málinu verður 21. til 23. nóvember. Héraðssaksaksóknari ákærði Svein Gest fyrir brot á 218. grein hegningarlaga, grein sem fjallar um stórfellda líkamsárás. Hámarks refsing fyrir brot á þeirri grein er 16 ára fangelsi, hljótist bani af árásinni.
Aðstandendur Arnars Jónssonar Aspar hafa kært til ríkissaksóknara þá ákvörðun héraðssaksóknara að fella niður rannsókn á hendur þeim sem fóru með Sveini Gesti að Æsustöðum í Mosfellsdal, þar sem Arnar lést. Alls voru sex manns upphaflega handteknir vegna málsins, fimm karlar og ein kona, en einungis Sveinn Gestur hefur verið ákærður.
Í kæru aðstandenda eru færð rök fyrir því að fleiri en Sveinn Gestur einn hafi gerst sekir um hlutdeild í líkamsárásinni sem talin er hafa leitt til þess að Arnar lést.