Sérsveitin handtók þrjá byssumenn við Stokkseyri

Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra. Mynd úr safni.
Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Sérsveit ríkislögreglustjóra handtók nú á níunda tímanum þrjá einstaklinga, tvo karlmenn og eina konu, sem höfðu verið á ferð í dag vopnuð haglabyssu, en þau eru talin tengjast innbroti þar sem skotvopni var stolið nýlega. Voru þau handtekin á sveitabæ í nágrenni Stokkseyrar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var mikill viðbúnaður vegna málsins og sögðu vegfarendur mbl.is að nokkrir ómerktir bílar sérsveitarinnar hefðu keyrt austur yfir Hellisheiði fyrr í kvöld.

Fólkið sem var handtekið er talið hafa verið í mikilli neyslu og segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn að Selfossi, í samtali við mbl.is að ákveðið hafi verið að gæta allrar varúðar við handtöku þeirra vegna ástands þeirra. 

Segir Oddur að þótt vitað hafi verið af fólkinu með haglabyssu á ferð fyrr í dag sé ekki talið að það hafi ógnað öðru fólki. 

Fólkið var flutt á lögreglustöð og verður yfirheyrt, en Oddur staðfestir að það eigi sér sögu hjá lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert