Önnur húsleit vegna handtöku í gær

Lögreglan á Suðurlandi í samstarfi við sérsveit ríkislögreglustjóra handtók fólkið …
Lögreglan á Suðurlandi í samstarfi við sérsveit ríkislögreglustjóra handtók fólkið í gær. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á Suðurlandi hefur í dag skoðað vettvang við sveitabæ í nágrenni Stokkseyrar þar sem tveir karlar og ein kona voru handtekin í gær. Eru þau talin tengjast innbroti þar sem skotvopni var stolið og að hafa verið á ferð í gær vopnuð haglabyssu. Þá vinnur lögreglan nú að annarri húsleit vegna málsins, en um er að ræða tvo aðskilda staði.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir í samtali við mbl.is að ekki sé enn búið að yfirheyra fólkið, en að eftir húsleitirnar verði teknar skýrslur af fólkinu og ákvörðun um framhaldið tekin í kjölfarið.

Hann segir að vettvangi málsins við Stokkseyri hafi verið lokað í gær og strax í birtingu hafi verið framkvæmd leit. Ekki hafi verið um neitt annað að ræða, þar sem bæði sé um að ræða íbúðarhús og útiskemmur.

Samkvæmt lagaheimild getur lögreglan haldið fólki án úrskurðar í 24 klukkustundir og allt að 30 sé ástand þess þannig að ekki sé hægt að taka skýrslu af því innan sólarhrings.

Fólkið var handtekið í gær af lögreglunni á Suðurlandi með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert