Byssumönnum sleppt eftir yfirheyrslur

Lögreglumenn að störfum. Myndin er úr safni.
Lögreglumenn að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólkið sem sérsveit ríkislögreglustjóra handtók við Stokkseyri á sunnudagskvöldið, hefur verið látið laust. Um er að ræða tvo karlmenn og eina konu; fólk sem hafði verið á ferð á Stokkseyri vopnað haglabyssu. Byssunni var þó ekki beitt.

„Yfirheyrslur voru kláraðar í gærkvöldi og fólkið látið laust af þeim loknum,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi.

Mbl.is greindi frá því á sunnudag að fólkið væri grunað innbrot þar sem haglabyssa var á meðal þess sem stolið var. Þau voru handtekin á sveitabæ í nágrenni Stokkseyrar á sunnudagskvöldið. Mikill viðbúnaður var vegna aðgerðar lögreglu.

Fólkið var að sögn Odds í mikilli neyslu þegar það var handtekið. Það neitaði allri sök. „Við leituðum á þessum stöðum og eitthvað þýfi fannst á íverustað þeirra,“ segir Oddur við mbl.is. Hann segir að málið sé enn í rannsókn enda eigi til að mynda eftir að greina eigendur þess þýfis sem fannst. Í því samhengi þurfi meðal annars að rannsaka fingraför.

Oddur segir að nokkuð umfangsmikil pappírsvinna bíði lögreglu og því sé rannsókn málsins ekki lokið, þó fólkinu hafi verið sleppt. Hann segir að ekki hafi þótt grundvöllur til að úrskurða fólkið í gæsluvarðhald.

Hann segir að upphafið að rannsókn lögreglu hafi beinst að innbroti og þjófnaði en síðan hafi lögregla fengið fréttir af því að fólkið hefði skotvopn undir höndum. Rannsóknin lúti að þessum þáttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert