Varpar vínilplötu í hafið úr þyrlu

Samstarfsaðilar Ásgeirs verkefninu eru verkfræðistofan Verkís, RÚV og Ævar vísindamaður.
Samstarfsaðilar Ásgeirs verkefninu eru verkfræðistofan Verkís, RÚV og Ævar vísindamaður. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn Ásgeir mun á morgun varpa 7” vínilplötu í hafið úr þyrlu áður en hann kemur fram á tónleikum í Hörpu um kvöldið á hátíðinni Iceland Airwaves.

Samstarfsaðilar Ásgeirs í þessu verkefni eru verkfræðistofan Verkís, RÚV og Ævar vísindamaður.

Plötunni hefur verið pakkað inn í sérstakt flöskuskeyti og verður varpað í sjóinn um 40 kílómetra suðvestur af Reykjanesi, að því er kemur fram í tilkynningu.

Á plötunni er að finna tvö lög sem Ásgeir tók upp í júlí er hann stóð fyrir verkefninu Beint á vínyl þar sem hann tók upp tónlist beint á 7” vínylplötur sleitulaust í 24 klukkustundir í beinni útsendingu á RÚV og sinni eigin Youtube-rás.

Alls urðu til 30 vínylplötur í þessu ferli en upptökurnar sem eru að finna á hverri plötu eru hvergi til annars staðar.

Ásgeir við hylkið utan um vínylplötuna.
Ásgeir við hylkið utan um vínylplötuna. Ljósmynd/Aðsend

Undanfarnar vikur hafa Ásgeir og hans fólk staðið fyrir fjársjóðsleit um heim allan þar sem heppnir sigurvegarar fá eina slíka plötu til eignar. Nú þegar hefur farið fram fjársjóðsleit í Bandaríkjunum, Ástralíu, Frakklandi, Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, á Spáni, í Póllandi og Hollandi og í næstu viku verða tvær plötur faldar í Japan. Í dag var svo röðin komin að Íslandi er ein af þessum vínylplötum var falin á Akureyri en það er hins vegar á morgun sem verkefnið nær hápunkti með flöskuskeytinu.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á sjávarmengun, einkum plastmengun, með því að sýna fram á að það sem fer í sjóinn hverfur ekki, heldur ferðast um heimsins höf og rekur á strendur annars staðar.

Flöskuskeytið er útbúið með GPS-staðsetningarbúnaði og gervihnattasendi sem gerir fólki kleift að fylgjast með ferðalögum plötunnar á heimasíðu Ásgeirs og Verkís.

Sá sem finnur flöskuskeytið að lokum fær plötuna til eignar.

Í fyrri tilraun Verkís með flöskuskeyti sem fyrirtækið vann að ásamt Ævari vísindamanni voru tvö flöskuskeyti rúmt ár að ferðast yfir Atlantshafið uns þau bar að landi í Skotlandi og Færeyjum.

Lögin tvö sem er að finna á vínylplötunni sem varpað verður í sjóinn á morgun eru Hljóða nótt og Hærra. Bæði lögin var upphaflega að finna á frumraun Ásgeirs Dýrð í dauðaþögn sem kom út árið 2012.

Hægt verður að fylgjast með athöfninni frá klukkan 13.15 á morgun á Facebook-síðu Ásgeirs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert