Fer fram á 4 milljónir í miskabætur

Ástu Kristínu Andrésdóttur létt eftir að hún hafði verið sýknuð …
Ástu Kristínu Andrésdóttur létt eftir að hún hafði verið sýknuð í desember 2015. mbl.is/Jón Pétur

Aðalmeðferð í skaðabótamáli Ástu Kristínar Andrésdóttur, sem var sýknuð í desember 2015 af ákæru um manndráp af gáleysi vegna starfa sinna sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, gegn íslenska ríkinu hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 9.5 í dag.

Vitnaleiðslur fara fram fyrir hádegi og málið verður síðan flutt eftir hádegi að sögn Einars Gauts Steingrímssonar, lögmanns Ástu Kristínar. Fer hún fram á fjórar milljónir króna í miskabætur vegna málsmeðferðar lögreglu og ákæruvaldsins í málinu.

Miskabótakrafan snýr að því meðal annars að ekki hafi verið staðið rétt að rannsókn málsins og hrapað hafi verið að ályktunum. Grundvöllur ákæru hafi í raun verið yfirheyrslur sem fram hafi farið á Landspítalanum sem einnig hafi verið ákærður í málinu.

Einar Gautur bendir á í yfirliti yfir helstu málsástæður að þannig hafi gagna verið aflað án þess að Ásta Kristín hefði réttarstöðu sakbornings. Yfirheyrslan á Landspítalanum hafi ennfremur farið fram þegar ljóst er að Ásta Kristín hafi verið í áfalli.

Einar segir við mbl.is aðra kröfu einnig í loftinu um bætur vegna varanlegra afleiðinga vegna málsins fyrir skjólstæðing hans sem ekki sé rekin í þessu máli. 

Einar Gautur Steingrímsson.
Einar Gautur Steingrímsson. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert