Plötu Ásgeirs varpað úr þyrlu

Ásgeir Trausti og hylkið tilbúin til brottfarar.
Ásgeir Trausti og hylkið tilbúin til brottfarar. Ljósmynd/Aðsend

Einstaka vínylplötu tónlistarmannsins Ásgeirs Trausta rekur nú um Atlantshafið. Plötunni var varpað úr þyrlu 40 kílómetra út af Reykjanesi um hálftvö í dag. Uppátækið er samvinnuverkefni Ásgeirs, Ævars vísindamanns, RÚV og verkfræðistofunnar Verkís, sem hannaði sérstakt hylki utan um plötuna svo hún standi volkið af sér. Því er ætlað að vekja athygli á sjávarmengun með því að sýna fram á að það sem fer í sjóinn hverfur ekki heldur ferðast um heimsins höf og rekur á strendur annar staðar. 

Ásgeir kemur fram á tónleikum í Hörpu í kvöld en þeir eru hluti hátíðarinnar Iceland Airwaves. Hann deildi þyrlufluginu í beinni á Facebook-síðu sinni.

Flöskuskeytið er útbúið GPS-staðsetningarbúnaði og má fylgjast með ferðalagi þess á heimasíðu Verkís. Sá á fund sem finnur.

Platan er 7" vínyll. Á annarri hliðinni er lagið Hljóða nótt en lagið Hærra á hinni. Þau komu bæði út á fyrstu plötu Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn, árið 2012. Upptakan er frá í júlí í ár er Ásgeir tók upp tónlist í sólarhring samfleytt í beinni útsendingu á RÚV. Alls urðu 30 einstakar vínylplötur til í því ferli og hefur Ásgeir staðið fyrir fjársjóðsleit víða um heim, meðal annars í Ástralíu, Frakklandi og á Spáni, þar sem sigurvegarar fá eina plötu til eignar.

Ásgeir Trausti virðir hylkið fyrir sér.
Ásgeir Trausti virðir hylkið fyrir sér. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert