Þegar hefur verið rætt við nokkra sem urðu vitni að banaslysinu á Árskógssandi í fyrrakvöld og enn á eftir að ræða við fleiri vitni.
Þetta segir lögreglan á Norðurlandi eystra.
Nánari upplýsinga er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á morgun um hvernig rannsókn miðar á tildrögum slyssins en það er rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem annast rannsóknina. Þá munu fulltrúar frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa skoða bílinn sem fór í höfnina.
Talið að foreldrar með ungt barn hafi verið á leiðinni í Hríseyjarferjuna Sævar þegar bíll þeirra fór í sjóinn við ferjubryggjuna í gær með þeim afleiðingum að þau létust. Ekki er unnt að greina frá nöfnum þeirra að svo stöddu.