„Markmiðið er að gleðja aðra“

Engilbert nýtur þess að gleðja aðra og fær útrás fyrir …
Engilbert nýtur þess að gleðja aðra og fær útrás fyrir það í Coscto Facebook-hópi. mbl.is/Hari

„Markmiðið er að gleðja aðra. Maður veit aldrei hvað smá gleði getur gert fyrir aðra. Maður veit ekki hvernig öðrum líður og sumir þurfa kannski bara smá „pepp“ inn í daginn.“ Þetta segir Engilbert Arnar Friðþjófsson en margir hafa eflaust séð færslur hans inni í Facebook-hópnum Keypt í Costco Ísl. Myndir og verð. 

Hann hefur verið ansi duglegur að birta færslur með myndum og upplýsingum um hinar og þessar vörur og textinn sem hann skrifar með er oft ansi skondinn. Viðbrögðin við færslunum hafa ekki látið á sér standa. Flestir þakka honum fyrir að vera bæði skemmtilegur og hjálplegur en öðrum finnst hann ganga of langt. Honum er hins vegar alveg sama um það, þakklætið er gagnrýninni yfirsterkari. Hann hefur fengið sinn skerf af mótlæti í lífinu og lærði að tileinka sér jákvæðni. Þetta er ein af hans leiðum til að gefa af sér til annarra.

Hér er til dæmis lýsing Engilberts á ilmvatni sem var til sölu í Costco fyrir skömmu: „Vera Wang is in the building og öll plön þín fjúka út um gluggann þennan daginn/kvöldið og „Bridget Jone's Baby“ myndin sem þú ætlaðir að horfa á aftur í kvöld það þýðir bara ekki neitt! Vera Wang Princess 50ML. Verð:2.649,- Þetta er algjör bomba! B.O.B.A. Við vonum allavega að lyktin sé góð!“

„Skóli lífsins hefur kennt mér jákvæðni“

Allt byrjaði þetta þó með einum frysti og færslu um verðmuninn á milli verslana. „Til að byrja með var ég að leita mér að frysti. Ég fór fyrst í Costco til að kíkja frysti og leist vel á það sem ég sá. Svo fór ég í bræðurna Ormson og sá að það munaði ekki nema 59.901 krónu á verðinu á frystinum. Ég ákvað því að kaupa frystinn hjá Costco,“ segir Engilbert um fyrstu kynni sín af Costco. Hann var þá orðinn meðlimur í áðurnefndum Facebook-hóp og hafði fylgst með öðrum setja inn færslur um hitt og þetta.

„Ég hugsaði þá með mér hvort ég ætti að skrifa færslu inn í hópinn eða ekki. Mér finnst Costco vera eitt risastórt áramótapartý fyrir Íslendinga. Þannig ég hugsa ég og ákvað því að setja þetta inn.“ Þá var ekki aftur snúið og færslur Engilberts skipta nú eflaust tugum ef ekki hundruðum. Hann leggur vinnu í textann og leitar sér jafnvel upplýsinga um vörur á netinu til að geta sagt betur frá þeim.

Engilbert hefur fengið sinn skerf af mótlæti í gegnum tíðina.
Engilbert hefur fengið sinn skerf af mótlæti í gegnum tíðina. mbl.is/Hari

Engilbert hefur þó ekki alltaf verið svona jákvæður og glaður, langt því frá. „Ég lenti í vinnuslysi árið 2007 og aftanákeyrslu ári seinna. Ég hef þurft að upplifa margt neikvætt, en líka margt jákvætt. Skóli lífsins hefur kennt mér jákvæðni,“ segir Engilbert sem er öryrki eftir slysin og hefur því lítið sem ekkert getað unnið í tíu ár. „Ég er alltaf með höfuðverk og verk í hálsinum, en maður verður samt að horfa fram á veginn og vera jákvæður.“

Í haust dundi svo yfir annað áfall. „Pabbi minn greindist með krabbamein í október og það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þegar við fengum fréttirnar um að æxlið væri illkynja þá breyttist óttinn í lífi mínu. Hann hætti að vera til. Mig langaði frekar að vera fyrir utan þægindarammann og ekki óttast. Þá verður lífið fyrst skemmtilegt.“

Spurður hvort hann bjóði upp á skoðunarferðir

Eftir röð áfalla hefur Engilbert tileinkað sér jákvæðni í lífinu og reynir að tækla hlutina með gleðina að leiðarljósi. Hann hefur einnig þörf fyrir að dreifa gleðinni og finnst gott að geta auðveldað öðrum lífið. Sem er einmitt tilgangur hans með færslunum.

„Ég fór að setja inn eitt og eitt innlegg og þegar ég fékk góðar móttökur þá hélt ég þessu ósjálfrátt áfram. Mér hefur alltaf þótt gaman að gleðja aðra og ég hef alltaf verið eins og trúður í fjölskyldunni minni, þegar þess þarf. Fólk sækir í mig þegar það vantar góð ráð, stuðning eða smá gleði. Það er alltaf stutt í gleðina hjá mér. Ég vil reyna að hjálpa fólki.“ Hann viðurkennir að það fari smá vinna í þetta hjá honum, en hann vílar það ekki fyrir sér. „Kannski fór ég aðeins fram úr mér á tímabili og setti ansi margar færslur inn,“ segir hann hlæjandi. „En mig langar að nota tækifærið og þakka öllum sem hafa verið virkir á einhvern hátt í færslum mínum og vonandi hef ég fært þeim í leiðinni smá gleði,“ segir hann einlægur.

Viðbrögðin við færslum Engilberts eru yfirleitt góð og margir hafa þakkað honum fyrir að gefa sér tíma til að vera svona skemmtilegur. „Ég fékk að meira að segja að heyra það frá leikskóla í Kópavoginum að þau væru ánægð með mig þar. Svo hef ég verið spurður að því hvort ég ætli að bjóða upp á skoðunarferðir. Það er allskonar húmor og vitleysa í þessu.“

Missti samband við þjóðfélagið vegna þunglyndis

Að hans mati hafði hrunið mikil áhrif á geðslag Íslendinga. Hann telur fólk almennt hafa orðið þyngra í skapinu í kjölfar þess. „Þó það sé langt síðan hrunið átti sér stað þá finnst mér það hafa verið eins og veirusýking á þjóðina. Allir urðu minna jákvæðir. Ég hef sjálfur upplifað þunglyndi, en fólk sem hefur ekki upplifað það getur líklega ekki sett sig í þau spor. Á tveggja ára tímabili leið mér eins og ég hefði verið tekinn úr sambandi við þjóðfélagið. Mér leið mjög illa eftir vinnuslysið og aftanákeyrsluna og þurfti að læra það að vera jákvæður.“

Engilbert segist vera trúðurinn í fjölskyldunni sinni.
Engilbert segist vera trúðurinn í fjölskyldunni sinni. mbl.is/Hari

Hann segir það ekki skipta neinu máli hvað öðrum finnst um það sem hann gerir. Hvort einhver segi eitthvað neikvætt. „Á meðan mér líður vel þá skiptir það ekki máli.“

Engilbert segist þó ekki alltaf vera jákvæður. Hann leyfir sér stundum að líða illa. „Ég er sem betur fer ekki fullkominn. Ég er ekki alltaf glaður. Ég leyfi mér að líða illa þegar þess þarf. Mér finnst að allir eigi rétt á því. Ég skammast mín ekkert fyrir það, en ég svaf heilt sumar úti á svölum vegna þunglyndis. Þá meina ég að degi til.“

„Sumir segja að ég búi í Costco“

Tæplega 95 þúsund manns eru Facebook-hópnum Keypt í Costo Ísl. – Myndir og verð og Engilbert segir fjölmarga hafa sett sig í samband við hann og beðið hann um að halda áfram að setja inn færslur. „Svo er fullt af fólki sem hefur komið með þá hugmynd að Costco fái mig í vinnu. Mér finnst mjög gaman að selja. Mér finnst gaman að markaðssetningu og auglýsingum.“

Engilbert hlær þegar hann er spurður hvort hann eyði ekki óheyrilega miklum tíma í Costco. „Sumir segja að ég búi í Costco,“ segir hann hlæjandi. Sem er kannski ekki fjarri lagi.

„Stundum er ég sendur í Costco. Stundum fer ég sjálfur í Costco að kaupa vörur sem mig vantar, stundum eru þær ekki til og þá fer ég bara aftur síðar og athuga hvort þær er komnar. Stundum fer maður í IKEA og þá freistast maður stundum til að fara yfir,“ segir Engilbert, en hann hrífst af hugmyndafræðinni á bakvið verslunina. „Costco er risastór gjöf til Íslendinga. Það eru allir glaðir þarna og það hefur örugglega ekki farið framhjá neinum góðu viðtökurnar sem þeir hafa fengið.“

Það er ekki ósennilegt að færslur Engilberts í hópnum hafi hvatt einhverja til að kíkja í Costco í þeim tilgangi að næla sér í vörurnar. „Mér finnst alveg magnað að heyra frá öðrum að ég hafi fengið þá til að versla meira í Costco. Ein sagði mér til dæmis að hún hefði verslað allar jólagjafirnar í Costco, og það hafi verið mér að þakka. Ég fæ oft að heyra að ég ætti að vera á prósentum hjá Costco. Mér finnst líka gaman að því þegar aðrir setja inn færslur í hópinn, því það hjálpar öðrum. Ég lít ekki á mig sem einhvern meiri mann en hvern annan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka