Nöfn nokkurra tuga Íslendinga er að finna í þeim 13,4 milljónum skjala sem 96 fréttamiðlar í 67 löndum byrjuðu að fjalla um í gærkvöldi. Paradísarskjölin, eins og þau eru kölluð, veita innsýn í skattaparadísir víða um heim um það hvernig efnað fólk og alþjóðleg stórfyrirtæki nýta sér glufur í kerfinu til að borga minni skatta eða fela eignir sínar, segir á vef Reykjavík Media sem kemur að rannsókninni ásamt RÚV á Íslandi.
„Skjölin koma innan úr lögfræðistofunni Appleby á Bermúdaeyjum og innan úr Asiaciti-sjóðnum í Singapúr. Í skjölunum eru einnig upplýsingar úr 19 fyrirtækjaskrám á þekktum lágskattasvæðum eins og Möltu, Bermúda og Caymaneyjum. Það var þýska blaðið Süddeutsche Zeitung sem komst yfir gögnin og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavik Media og 96 fjölmiðlum í 67 löndum.
Ólíkt Panamaskjölunum er Ísland smátt í þessum gagnaleka. Nöfn Íslendinga er að finna í gögnunum frá Appleby og einnig í fyrirtækjaskrá Möltu. Ekki hafa fundist nöfn íslenskra stjórnmálamanna í gögnunum en þar er hins vegar að finna nöfn 126 stjórnmálamanna frá 47 löndum. Af Norðurlöndunum er Ísland með fæstu nöfnin í gögnunum en Norðmenn flest eða um eitt þúsund. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV mun fjalla um nokkur íslensk nöfn sem fundust í gögnunum næstkomandi þriðjudag,“ segir á vef Reykjavik Media.