Ákveðið var að fresta dómsmeðferð í Chesterfield-málinu svokallaða, sem einnig er þekkt sem CLN-málið. Þetta var ákveðið við fyrirtöku þess í héraðsdómi í gær, en saksóknari málsins staðfestir við mbl.is að málinu hafi verið frestað um ótiltekinn tíma meðan lögregla og ákæruvald rannsaki þau atriði sem Hæstiréttur taldi rétt að yrðu rannsökuð nánar, en Hæstiréttur ógilti fyrri dóm héraðsdóms í síðasta mánuði.
Þrír helstu stjórnendur Kaupþings voru ákærðir í málinu fyrir umboðssvik með því að hafa lánað 508 milljónir evra á tímabilinu ágúst til október 2008 til tveggja félaga og þannig stefnt fjármunum bankans í hættu. Taldi saksóknari að lánin væru með öllu glötuð. Voru lánin notuð til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche bank sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings og taldi saksóknari það markmið viðskiptanna að lækka skuldatryggingaálagið. Voru hinir ákærðu allir sýknaðir í héraðsdómi.
Eftir að héraðsdómur féll í janúar í fyrra komu fram upplýsingar um að Deutsche bank hefði greitt stóran hluta upphæðarinnar, eða 400 milljónir evra, til þrotabús Kaupþings vegna málsins.
Vegna þessa ákvað Hæstiréttur að aðeins yrðu tekin fyrir tvö atriði málsins, en verjendur í málinu töldu upplýsingarnar breyta miklu varðandi grundvöll málsins og að þær styrktu ekki málflutning ákæruvaldsins. Í kjölfarið var héraðsdómurinn ómerktur og málinu vísað aftur í hérað.
Taldi Hæstiréttur að ekki lægi fyrir að hvaða ástæðum fallist hefði verið á að inna greiðslur samkvæmt samkomulagi Kaupþings og Deutsche bank af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna bankinn og eignarhaldsfélögin tvö reistu málsóknir sínar á bendur Deutche Bank um greiðslu á.
Þá taldi Hæstiréttur að ekki lægi fyrir hvers eðlis greiðslurnar væru. Þar af leiðandi taldi Hæstiréttur að rannsókn á þessum atriðum gæti haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum umboðssvika hefði verið fullnægt og við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði sakfellingar yrðu talin fyrir hendi. Samkvæmt því var sýknudómurinn og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.