Ótrúlega margt gott fólk á Akureyri

Dario Schwo­erer á ekki orð til að lýsa þeirri velvild …
Dario Schwo­erer á ekki orð til að lýsa þeirri velvild og hjálpsemi sem hann og fjölskylda hans hafa mætt eftir að skúta þeirra laskaðist illa við Torfunefsbryggju á Akureyri um helgina. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Akureyri er líklega besti staður á jörðinni. Það er ótrúlegt hversu margir hafa komið og boðið okkur aðstoð,“ segir Dario Schwo­erer, sviss­neskur lofts­lags­fræðing­ur­ og skíða- og fjalla­leiðsögumaður­ sem var hætt komin í aftakaveðri í Akureyrarhöfn þar sem hann hefur búið í skútu ásamt fjölskyldu sinni.

„Það er ótrúlegt hvað það er margt gott fólk hér á Akureyri,“ bætir hann við.

Þau Dario og Sa­bine kona hans hafa siglt skút­unni Pachamama um heimsins höf í 17 ár. Þau hjón eiga sex börn sem fæðst hafa á ferðalagi þeirra um heim­inn og yngsta barnið kom ein­mitt í heim­inn á sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri fyr­ir tveim­ur mánuðum. Þau höfðu þess vegna ákveðið að hafa vetursetu á Akureyri. Með fjöl­skyld­unni í för er svo ein aðstoðar­kona Miriam.

Töluverðar skemmdir urðu á Pachamama, sem var með land­fest­ar við Torfu­nefs­bryggju sem var mjög illa var­in fyr­ir suðaustanátt­inni á sunnudag. Festingar (svo nefndir fingur) sem skútur við flotbryggjuna eru festar saman með slitnuðu og lamdist skútan við bryggjuna og mátti vart tæp­ara standa þegar björg­un­ar­sveitar­fólki og lög­reglu tókst að bjarga þeim á land.

Dario kveðst stoltur af börnum sínum sem hafi brugðist hárrétt við þegar þau voru rétt björgunarsveitarfólki sem beið á bryggjunni og hvalaleiðsögumaðurinn Össur, sem Dario nefnir Súpermann, er honum líka ofarlega í huga. „Hann var fyrsti maður á staðinn þegar veðrið var sem verst og reyndi þá að komast út á bryggjuna. Hann kom líka fyrstu línunni út í skútuna og kom í veg fyrir að hún sykki,“ rifjar hann upp.

Skemmdir á skútunni skoðaðar.
Skemmdir á skútunni skoðaðar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vongóður um að ferðalaginu sé ekki lokið

Dario segir vissulega sorglegt að vita skemmdunum á Pachamama. „En ég held að seinna meir, þegar við horfum til baka, að þá munum við líka minnast með hlýju þeirra miklu hjálpar og góðvildar sem við höfum mætt.“ Þau hafa siglt yfir 100.000 sjómílur á Pachamama og heimsótt rúmlega 100 lönd á skútunni.

Hann segir að þökk sé Akureyri og íbúum fyrir norðan þá sé hann vongóður um að ferðalagi Pachamama sé ekki lokið. „Ég sagði við konu mína að þetta gæti ekki versnað frekar og nú færi þetta bara upp á við.“

Veggir eru sprungnir og aðeins brotnir í vistarverum um borð, …
Veggir eru sprungnir og aðeins brotnir í vistarverum um borð, en búið er að flytja allt dót um borð í gám til að forða því frá skemmdum. Skapti Hallgrímsson

Komið fólk alla leið frá Ólafsfirði

Dario segir ótrúlegt hve margir hafi boðið fram hjálp sína. „Jóhannes Hjálmarsson hjá Eimskip bauð okkur gám sem dótið okkar hefur verið flutt yfir í. Síðan hefur komið fólk  að hjálpa okkur, jafnvel alla leið frá Ólafsfirði,“ segir hann.

Sjómaðurinn Sverrir hafi eytt öllum gærdeginum í hjálpa þeim að flytja dót úr skútunni og leita lekans. Annar sjómaður Siggi hafi svo passaði  yngsta barnið þeirra. „Svo kom Erlendur Guðmundsson kafari líka og hjálpaði. Hann var í ísköldum sjónum í einn og hálfan tíma að smyrja smjörlíki og smjör á kjölinn þar sem lekinn er.“ Dario segir hafa dregið það mikið úr lekanum við þennan gjörning að hann gat tekið sér hvíld frá því að dæla vatni úr skútunni og náði fyrir vikið fimm stunda svefni í nótt. „Nú er hins vegar vatnið tekið að koma inn aftur,“ segir hann.

„Síðan hefur eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar leyft okkur að dvelja í húsi leiðsögumanna fyrirtækisins,“ segir Dario. Börnin hafi verið þar í gær að drekka heitt kakó og svo hafa þau geta sofið þar.

„Við elduðum svissneska máltíð í gær sem þakklætisvott fyrir allt fólkið sem er búið að vera að hjálpa okkur. Þetta fólk kom bara og hjálpaði og bað ekki um neitt í staðinn,“ segir Dario „og mér finnst það alveg frábært.“

Hliðar skútunnar skemmdist töluvert eftir að hún lamdist hressilega við …
Hliðar skútunnar skemmdist töluvert eftir að hún lamdist hressilega við bryggjuna þrátt fyrir að reynt væri að setja björgunarbáta og flotbretti á milli. mbl.is/ Skapti Hallgrímsson

Maður sem lætur hlutina gerast

Er mbl.is ræddi við Dario átti hann von á Ólafi Jónssyni frá Slippnum á Akureyri sem ætlaði að skoða skútuna og sjá hvort að þeir geti gert við hann. „Hann hefur víst mikla reynslu á þessu sviði,“ bætir hann við.

Ei­rík­ur Björn Björg­vins­son, bæj­ar­stjóri Ak­ur­eyr­ar, er þá búinn að koma við hjá þeim í skútunni til að skoða aðstæður og segir Dario hann hafa haft áhyggjur af aðstæðum þeirra. „Þá var líka á staðnum maður sem heitir Finnur sem ég held að eigi vegavinnufyrirtæki. Hann sagði okkur að hann gæti útvegað okkur krana þegar það þarf að lyfta skútunni á land og ég hef á tilfinningunni að hann sé svona maður sem lætur hlutina gerast,“ segir hann.

„Ég held að viðhorfið hér á Íslandi sé gjörólíkt því sem viðgengst margs staðar annar staðar,“ segir Dario og fær ekki þakkað nógsamlega alla þá aðstoð sem fjölskyldan hefur fengið. „Það er alveg einstakt hvernig Íslendingar reyna alltaf að finna lausn á öllu í svona máli.“

Framundan hjá fjölskyldunni er svo að finna geymslu til að þurrka dótið betur og gera við það sem skemmdist. Þá eru þau líka að leita að leikskólaplássi fyrir þriggja ára dóttur sína. „Því núna er Sabine að sinna tveimur ungur börnum og getur þannig ekki unnið mikið í skútunni,“ segir Dario.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert