Verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, óskaði eftir því í dag við fyrirtöku máls sem kennt er við samnefnt einkahlutafélag Hreiðars að fengið yrði álit frá EFTA-dómstólnum um nokkur álitamál sem tekist er á í dómsmálinu.
Óskaði verjandinn eftir því að fengið yrði álit við fjórum spurningum er varða innherja og innherjaupplýsingar. Óljóst er hversu langan tíma tekur að fá slíkt álit, en málsaðilar og dómari töldu líklegt að það væri á bilinu hálft og upp í eitt ár og væri þá ár líklegri tími.
Af spurningunum sem verjandinn leggur fram og í rökstuðningi með þeim er ljóst að hinn ákærði telur lagasetningu hér er varðar innherjaviðskipti vera mun strangari en fram kemur í ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins varðandi verðbréfaviðskipi. Þar hafi verið tekið fram að koma eigi í veg fyrir að einstaklingar eða lögaðilar sem búi yfir innherjaupplýsingum geti hagnast á slíkri vitneskju. Aftur á móti sé ekki lokað fyrir að tveir aðilar sem búi yfir slíkum upplýsingum eigi viðskipti, hvað þá þegar um sé að ræða viðskipti einstaklings við lögaðila sem sé að fullu í eigu sama einstaklings eins og sé staðan í þessu máli.
Segir í rökstuðningi með spurningunum að álit EFTA-dómstólsins sé forsenda þess að unnt sé að komast að niðurstöðu um hvort um refsiverða háttsemi sé að ræða eða ekki í málinu.
Saksóknari í málinu óskaði eftir frest í nokkra daga til að taka afstöðu til kröfunnar um álit EFTA-dómstólsins. Í svokölluðum hrunmálum hefur áður verið óskað eftir áliti EFTA-dómstólsins varðandi innherjaviðskipti og túlkanir á lagaákvæðum. Í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis var meðal annars deilt um hvað fælist í óformlegri viðskiptavakt með eigin bréf. Í því tilfelli hafnaði héraðsdómur kröfunni um álitið með vísan til dómafordæma í Hæstarétti.
Í málinu sem nú er til meðferðar hjá héraðsdómi er Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. 574 milljóna króna eingreiðslulán í ágúst 2008. Er hann ákærður fyrir umboðssvik og innherjasvik.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, hefur verið ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa veitt liðsinni í verki við að koma þeim fram. Einkum með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans síðari hluta ágústmánaðar 2008.
Í ákærunni segir að lánið hafi verið veitt án samþykkis stjórnar bankans og án þess að fullnægjandi tryggingar væru fyrir endurgreiðslu þess. Hafi einu tryggingar lánsins verið allir hlutirnir í einkahlutafélaginu, sem fyrir hafi verið veðsettir vegna eldri skulda félagsins og því ekki nægilegt veðrými til staðar fyrir nýja lánið.
Lánið var nýtt til að kaupa hluti í bankanum fyrir 571 milljón krónur, en sama dag hafði Hreiðar í eigin nafni samkvæmt kauprétti keypt sömu hluti fyrir 246 milljónir.