Áslaug Ýr fær ekki greiddar bætur

Áslaug Ýr Hjartardóttir stefndi Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra og ís­lenska …
Áslaug Ýr Hjartardóttir stefndi Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra og ís­lenska ríkinu fyrir mismunun.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í sumar þar sem Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra og ís­lenska ríkið voru sýknuð af kröfu Áslaug­ar Ýrar Hjart­ar­dótt­ur, dauf­blindr­ar stúlku sem stefndi fyrr­nefnd­um aðilum vegna mis­mun­un­ar.

Áslaug Ýr er með samþætta sjón- og heyrna­rskerðingu og hugðist sækja sum­ar­búðir fyr­ir dauf­blind ung­menni frá Norður­lönd­un­um í júlí, en fær ekki þá aðstoð og túlkaþjón­ustu sem önn­ur ung­menni á Norður­lönd­un­um fá sem sækja sum­ar­búðirn­ar.

Áslaug Ýr hélt sínu striki og fór í sumarbúðirnar, en hún fékk lán til að greiða kostnaðinn við túlkaþjónustuna.

Frétt mbl.is: „Hér er túlkaþjónusta lúxus“

Áslaug Ýr krafðist þess að höfnun Samskiptamiðstöðvarinnar um beiðni hennar um endurgjaldslausa túlkaþjónustu yrði ógild. Þá krafðist hún einnig einnar milljónar króna í miskabætur þar sem hún taldi synjunina ekki standast lög.

Í dómnum kemur fram að Samskiptamiðstöðin taldi sig búa yfir takmörkuðum fjármunum og þyrfti að láta þá endast út ársfjórðunginn þegar beiðnin barst. Ef miðstöðin hefði orðið við beiðni hennar hefði hvorki verið gætt jafnræðis milli þeirra sem þarfnast túlkaþjónustu né hefðu fjármunirnir enst til loka ársfjórðungsins. Í dómnum kemur fram að það sé ekki á vladi dómstóla að mæla fyrir um fjárveitingar. Hæstiréttur staðfesti því dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Málskostnaður milli aðila fellur niður og mun allur gjafsóknarkostnaður Áslaugar Ýrar greiðast úr ríkissjóði.

Áslaug Ýr tjáði sig um dóminn á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún er að vonum vonsvikin með niðurstöðuna. Baráttu sé þó hvergi nærri lokið af hennar hálfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka