Marta Jónsdóttir nýr formaður hjúkrunarráðs

Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.
Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans. Ljósmynd/Landspítalinn

Marta Jónsdóttir hefur tekið við sem formaður hjúkrunarráðs Landspítala. Tók Marta við formennskunni í byrjun nóvember af Guðríði Kristínu Þórðardóttur sem hafði gegnt embættinu í þrjú ár.

Í fréttatilkynningu frá Landspítalanum segir að Marta hafi unnið sem verkefnastjóri á menntadeild Landspítalans frá því í fyrrahaust við að bæta öryggi og efla teymisvinnu meðal starfsfólks Landspítala.  

Marta útskrifaðist með BSc í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2010 og MPM-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík í júní 2017. Hún vann á hjartadeild Landspítala með námi til 2012,  síðan á hjartaþræðingarstofu til 2014. Hún var aðstoðardeildarstjóri á meltingar- og nýrnadeild 2014-2016.

Hlutverk hjúkrunarráðs, sem í eiga sæti allir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður spítalans, er meðal annars að vera faglegur ráðgefandi vettvangur fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður Landspítala og stjórnendur hans. Hjúkrunarráð á frumkvæði að og er vettvangur umræðna um hjúkrun innan stofnunar og utan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert