Í nýju starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hefur gefið út fyrir kísilverksmiðju PCC BakkiSilicon hf. á Bakka við Húsavík fer nokkuð fyrir kröfum um lyktarmengun og bökun á fóðringum í ofnum verksmiðjunnar. Voru það þessi atriði sem hafa hvað mest verið til umræðu eftir að ofn kísilverksmiðju United silicon í Helguvík var ræstur á sínum tíma og varð að lokum til þess að framleiðsla þar var stöðvuð.
Kemur fram í athugasemdum Umhverfisstofnunar vegna umsagnar Landverndar um starfsleyfið að ákvæði um lykt og bökun á fóðringum sé komið til vegna reynslu af starfsemi annarrar verksmiðju, kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Þá hafi PCC verið gert að skila upplýsingum um gangsetningarferli og bendir Umhverfisstofnun á að PCC ætli að nota forbökuð rafskaut sem ættu að tryggja betra rekstraröryggi ofnsins og minni lyktarmengun.
Starfsleyfi Bakka á vef Umhverfisstofnunar ásamt viðaukum og fylgiskjölum
Í starfsleyfinu segir meðal annars um lyktarmengun að gera skuli ráðstafanir til að koma í veg fyrir að lykt berist frá framleiðslustarfsemi þannig að hún finnist ekki utan iðnaðarsvæðisins. Segir Umhverfisstofnun að ekki sé búist við sömu vandamálum varðandi lykt og vart hefur orðið við í Reykjanesbæ og „slík vandamál eru ekki talin dæmigerð áhrif verksmiðju sem þessarar“, að því er segir í fylgiskjölum starfsleyfisins.
Skilaði PCC inn minnisblaði í kjölfar þess að Umhverfisstofnun benti á að ef hiti við bruna væri ekki nægilegur gætu myndast ýmis óæskileg efni. Þar kemur meðal annars fram að fyrirtækið ætli að nota fyrrnefnd forbökuð skaut. Þó er bent á að uppkeyrsla ofna geti valdið lyktarmengun og sýnilegum reyk í 72 klukkustundir á nokkurra ára fresti. Þá segir fyrirtækið að lögð verði áhersla á að notaður sé hreinn viður við brunann. „Þá má geta þess að með því að starfrækja háa neyðarskorsteina aukast líkur á að mengunarefni, þ.á m. lyktarefni, þynnist betur í lofti en ef þeim er sleppt út í gegnum reykhreinsivirki, vegna hita, hæðar skorsteins og hraða útblástursins,“ segir Umhverfisstofnun.