Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, telur ekki grundvöll fyrir áframhaldandi rekstri almannasamgangna, nema til komi stóraukið framlag frá ríkinu til rekstrarins. Var ákveðið á aðalfundi sveitarfélaganna að fela stjórn Eyþings að nýta uppsagnarákvæði samningsins.
Fram komnum hugmyndum um um niðurgreiðslu á innanlandsflugi var hins vegar fagnað á fundinum og var skorað á stjórnvöld að fylgja því máli eftir.
Í ályktun fundarins kom þá fram að mikilvægt væri að tryggja fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar samgöngumannvirkja í landshlutanum. Þá lögðu fundarmenn sérstaka áherslu á að tryggt yrði fjármagn til að klára Dettifossveg og til uppbyggingar á flughlaði á Akureyrarflugvelli.
„Auk þessa ítrekar fundurinn áður framkomnar ályktanir Eyþings um mikilvægi þess að koma uppbyggingu vegar um Langanesströnd og Brekknaheiði með bundnu slitlagi inn á framkvæmdaáætlun.“
Ástand í orkumálum á Norðurlandi eystra er hins vegar sagt vera algjörlega óviðunandi. „Ráðast þarf í stórátak í endurnýjun og styrkingu dreifikerfis raforku landsins til að bæta samkeppnisstöðu atvinnulífs í landshlutanum. Mikilvægt er að stjórnvöld skýri reglur og markmið og stuðli að betri sátt um uppbyggingu dreifikerfis raforku,“ segir í ályktuninni.
Þá skoruðu fundarmenn á stjórnvöld að stuðla að læknanámi við Háskólann á Akureyri og auka fjárveitingar til iðn- og tæknináms á framhalds- og háskólastigi á svæðinu. Einnig sé brýnt að hefja byggingu legudeilda við Sjúkrahúsið á Akureyri, tryggja fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila og að daggjöld séu miðuð við þær kröfur sem gerðar eru til rekstrarins.
Sóknaráætlanir voru enn fremur sagðar hafa sannað sig sem öflugt verkfæri í byggðamálum og mikilvægt væri að stjórnvöld hvikuðu ekki frá því verklagi sem í þeim fælist.