PCC á Bakka komið með starfsleyfi

verksmiðja PCC BakkiSilicon hf við Húsavík.
verksmiðja PCC BakkiSilicon hf við Húsavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir PCC BakkiSilicon hf. við Húsavík, en fyrirtækið ætlar að hefja framleiðslu á hrákísli í nýbyggðri verksmiðju á iðnaðarsvæði sínu á Bakka í Norðurþingi, rétt fyrir utan Húsavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Samkvæmt leyfinu er veitt heimild til framleiðslu allt að 66 þúsund tonna á ári og verður framleiddur meira en 98,5% hreinn kísill.

Auglýsing um starfsleyfistillöguna fór fram frá því í júlí og fram í september, auk þess sem haldinn var kynningarfundur. Landvernd sendi inn eina umsögn og ákvað Umhverfisstofnun að bera einn lið umsagnarinnar undir Skipulagsstofnun. Fjallaði sá liður um meinta annmarka á áliti Skipulagsstofnunar. Sagði Skipulagsstofnun að umfjöllun hennar hefði farið rétt fram samkvæmt lögum. Nánar er hægt að lesa um umsögn Landverndar og viðbrögð Umhverfisstofnunar við umsögninni á vef Umhverfisstofnunar.

Nokkur ákvæði starfsleyfisins voru endurskoðuð eftir auglýsingu, meðal annars ákvæði um úrgang eftir umsögn Landverndar. Gaf ein tilvísun í auglýstri tillögu til kynna að afar mikið magn (2.500 tonn á ári) myndi geta myndast af spilliefni. Segir Umhverfisstofnun að þetta hafi verið galli á tillögunni sem hafi nú verið lagfærður. „Umrædd 2.500 tonn á ári fyrir úrgang voru einnig ákvörðuð út frá sérstökum tilfellum sem gætu komið upp ef erfitt yrði að selja aukaafurðir. Greinin er einkum hugsuð til að skylda rekstraraðila til að leysa slík vandamál komi þau upp, sem ekki er talið líklegt,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Þegar starfsleyfistillagan var auglýst var gert ráð fyrir að skilgreina mætti 20% af rekstrartíma utan venjulegra aðstæðna, en það mat var endurskoðað við útgáfu. Ákveðið var að miða við 5% af rekstrartíma. Umhverfisstofnun hefur skoðað hvernig umhverfisyfirvöld í Noregi og annars staðar í Evrópu bregðast við tilskipuninni en ekki þarf að fylgja þessum reglum eftir af fullum þunga fyrr en eftir 30. júní 2020 en þá lýkur aðlögunartíma.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 8. nóvember 2033. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert