Brynjar Níelsson kveður Facebook

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hanna

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að hætta á Facebook „af heilsufarsástæðum“.

Á facebooksíðu sinni segir hann að samskipti á samfélagsmiðlinum séu vandmeðfarin og að kímnigáfa og skopskyn fólks sé mjög mismunandi.

„Sumir bera lítið skynbragð á kaldhæðni og þekkja bara orðið úr orðabókum. Viðbrögðin geta því verið ansi harkaleg og jafnvel ógeðfelld,” segir Brynjar og bætir við að sér hafi liðið vel áður en hann byrjaði á Facebook.

„Ég óttast að allir þessir samskiptamiðlar séu farnir að hafa alvarleg áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Sýnist að fólk sé að mestu hætt að tala saman og einu samskiptin séu þegar fólk er að sýna hvað öðru eitthvað í símanum. Kannski ekki skrítið að geðheilbrigðimál séu mesta áskorun stjórnmálanna í nánustu framtíð,“ segir Brynjar.

„Nú er svo komið að ég ætla, af heilsufarsástæðum, að kveðja Fésbókina, að minnsta kosti í bili. Eiginkonan mun gleðjast og kannski láta sjá sig aftur á meðal fólks og margir samflokksmenn mínir munu draga úr notkun róandi lyfja ef það er ekki orðið of seint. Kannski mun hin magnaða pólitíska hreyfing Pírata ná áttum. Kraftaverkin gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert