Þyrlan afturkölluð en send aftur af stað

Einn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi eftir bílslys á Sólheimasandi, austan við Jökulsá um klukkan 14 í dag. Tveir bílar skullu saman, jepplingur og fólksbíll. 

Frétt mbl.is: Bílslys á Sólheimasandi

Tveir voru í hvorum bíl og í fyrstu virtust meiðsli fólksins vera minniháttar. Þyrla Landhelgisgæslunnar sem kölluð var út vegna slyssins var afturkölluð þegar fyrstu viðbragðsaðilar komu á staðinn, en hún var svo kölluð út á nýjan leik og sótti einn farþeganna.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segist í samtali við mbl.is ekki hafa frekari upplýsingar um líðan fólksins, en skilst að þyrlan hafi verið kölluð til af öryggisástæðum. Þyrlan lenti við Landspítalann rétt fyrir klukkan 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert