Aðalmeðferð í Jökulsárslónsmáli

Hjólabátur við Jökulsárlón.
Hjólabátur við Jökulsárlón. mbl.is/Helgi Bjarnason

Skipstjóri hjólabáts sem bakkaði yfir kanadíska konu við Jökulsárlón í ágúst 2015 segist saklaus af manndrápi af gáleysi sem hann er sakaður um. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins sem nú fer fram í Héraðsdómi Austurlands.

Áður hefur komið fram í greinargerð málsins að maðurinn telji kanadísku konuna hafa sýnt af sér mikið gáleysi, að samstarfskona hans hafi ekki sinnt skyldu sinni og varað hann við og vinnuveitandi hafi borið ábyrgð á ófullnægjandi öryggisaðstæðum.

Samkvæmt frétt RÚV sagði samstarfskonan, sem er frá Ungverjalandi, fyrir dómi í dag að hún hafi gefið skipstjóranum merki um að óhætt væri að bakka. Síðan hafi hún gengið niður af hæð sem hún hafi staðið á og farið með hjólabátnum en þaðan verið illmögulegt að sjá fólk sem nálgaðist bátinn. Hún hafi ekki orðið vör við slysið fyrr en hún heyrði hróp fólks. Bakkmyndavél bátsins var biluð, en konan segist ekki hafa vitað af því.

Sonur konunnar sem lést bar vitni símleiðis í dag, en hann sagði að konan hefði staðið í um 3-4 mínútur á þeim stað sem hún hafi verið keyrð niður og horft á þyrlu koma til lendingar.

Verjandi hins ákærða sagði við mbl.is í sumar að maðurinn hafi upplýst um öll þau réttindi sem hann hafði og félagið sagt honum að þau væru fullnægjandi, enda væri félagið með undanþágu frá Samgöngustofu vegna siglinga á Jökulsárlóni.

Slysið varð í ág­úst árið 2015 og stýrði maður­inn stór­um hjóla­bát og bakkaði hon­um á kanadíska fjöl­skyldu sem stóð á bíla­plan­inu við lónið. Kon­an, Shelagh Donov­an, varð und­ir aft­ur­hjóli báts­ins með þeim af­leiðing­um að hún lést. Hinn ákærði var 22 ára þegar slysið varð og var án rétt­inda til að stjórna bátn­um að því er seg­ir í skýrslu Rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa um málið.

Það var lög­reglu­stjór­inn á Suður­landi sem gaf út ákæru á hend­ur mann­in­um, en þess er kraf­ist að hann verði dæmd­ur til refs­ing­ar, svipt­ingu öku­leyf­is og til greiðslu alls máls­kostnaðar. Verði hann fund­inn sek­ur um mann­dráp af gá­leysi gæti hann átt yfir höfði sér sex ára fang­elsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert