Hlutu heiðursviðurkenningu stærðfræðifélagsins

Kristín Bjarnadóttir, doktor í stærðfræðimenntun, og Kristín Halla Jónsdóttir, doktor …
Kristín Bjarnadóttir, doktor í stærðfræðimenntun, og Kristín Halla Jónsdóttir, doktor í stærðfræði, fengu heiðursviðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir framlag sitt til eflingar stærðfræði og stærðfræðimenntunar á Íslandi. Ljósmynd/Íslenska stærðfræðifélagið.

Þær Kristín Bjarnadóttir, prófessor emeritus, og Kristín Halla Jónsdóttir, dósent emeritus, hlutu í dag heiðursviðurkenningar fyrir góð störf í þágu stærðfræði og stærðfræðimenntunar á Íslandi. Voru verðlaunin veitt á 70 ára afmæli Íslenska stærðfræðifélagsins. Þær nöfnur hafa í marga áratugi komið að stærðfræðimenntun hér á landi og verið virkar í félagsstörfum fræðimanna.

Þær Kristín Bjarnadóttir og Kristín Halla Jónsdóttir eru skólasystur úr Menntaskólanum í Reykjavík og útskrifuðust þaðan úr stærðfræðideild sumarið 1943.

Margt áhugafólk um stærðfræði þekkir nafn Kristínar Höllu þar sem hún er þýðandi bókarinnar Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2006. Kristín Halla er fyrsti íslenski kvendoktorinn í stærðfræði en hún hélt til University of Houston að loknu B.Sc.-prófi í stærð- og eðlisfræði við Háskóla Íslands og lauk í Houston masters­prófi 1973 og doktorsprófi 1975. Aðalgreinar hennar voru algebra og grannfræði og að loknu námi starfaði hún við HÍ sem sérfræðingur og aðjúnkt, fluttist svo í Kennaraháskólann sem lektor 1977 og síðar dósent 1985 og frá 2008 sem dósent við menntavísindasvið þegar KHÍ sameinaðist HÍ.

Fyrir Íslenska stærðfræðafélagið hefur Kristín Halla starfað sem formaður 1979-1981 og er eini kvenformaður félagsins enn sem komið er, en á vegum félagsins hefur hún einnig komið að þjálfun og dómnefndarstörfum vegna ólympíu­leika í stærðfræði og sinnt störfum í orðaskrárnefnd.

Kristín Halla hefur starfað fyrir menntamálaráðuneytið, Félag raungreina­kennara og Háskóla Íslands í ýmiss konar undirbúningsnefndum ráðstefna, starfshópum um skólastarf, stundað nefndarstörf og ritrýnt greinar í tímarit um menntamál.

Báðar luku þær námi í uppeldis- og kennslufræði; Kristín Halla í aðdraganda náms í stærð- og eðlisfræði og Kristín eftir B.Sc.-prófið.

Kristín Bjarnadóttir starfaði víða sem kennari í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi að loknu grunnnámi en lauk síðan mastersprófi í stærðfræði við University of Oregon árið 1983 og starfaði við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í framhaldi af því.

Árið 2000 sótti Kristín ráðstefnu um stærðfræðimenntun í útborg Tokyo í Japan ásamt Kristínu Höllu og Friðriki Diego. Aðalfyrirlesari var Mogens Niss, prófessor við Háskólann í Hróarskeldu og einn þeirra sem mótaði stærðfræðihluta PISA-rannsóknarinnar. Ári síðar hóf Kristín doktorsnám í stærðfræðimenntun undir handleiðslu Mogens og lauk hún því verkefni í lok árs 2005 og varði í byrjun árs 2006. Hún varð prófessor árið 2013 og hefur verið ötul við rannsóknir á sögu stærðfræðinnar, skrifað fjölda ritrýndra greina og bókarkafla, kennslubækur fyrir skóla sem og fróðleik á Vísindavefinn og er ekki nándar nærri hætt að skrifa þótt hún sé orðin prófessor emeritus.

Kristín hefur komið að námskrár- og námsefnisgerð og verið ráðgefandi varðandi stærðfræðimenntun í landinu. Hún hefur einnig verið dugmikil í félagsstörfum Félags kvenna í fræðslustörfum, Bandalags íslenskra skáta og Félagi raungreinakennara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka