Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN hafa ákveðið að leggja stöðina niður og verður útsendingum hennar hætt í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu á Fésbókarsíðu sjónvarpsstöðvarinnar.
Þar segir jafnframt að ÍNN hafi glímt við mikinn rekstrar- og skuldavanda um árabil. Tækjabúnaður stöðvarinnar þarfnist endurnýjunar og ljóst sé að stöðin verði ekki rekin áfram nema nýtt fjármagn komi til.
Hlutafé í ÍNN var meðal þess sem Frjáls fjölmiðlun keypti af Pressunni í haust.
Samkvæmt tilkynningu ÍNN er niðurstaðan nú sameiginleg ákvörðun stjórnar Pressunnar og eiganda Frjálsrar fjölmiðlunar, en bæði félögin hafi lagt ÍNN til fjármagn undanfarin misseri.