Leynd yfir endurgreiðslu Zúista

Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism.
Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism. Ljósmynd/Aðsend

Forstöðumaður Zuism á Íslandi vill ekki gefa upp hversu margir fengu sóknargjöld sín endurgreidd, hversu há upphæð var greidd út í heild eða hversu miklir peningar eru eftir í félaginu. Félagið sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem fram kom að félagið hefði endurgreitt meðlimum sínum að fullu sóknargjöld þeirra fyrir síðustu 2 ár. „Allir meðlimir, sem sóttu um endurgreiðsluna, fengu greiddar 19.976 kr.“

„Mér líður mjög vel með þetta,“ segir Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður. Hann segir að loksins hafi verið hægt að klára endurgreiðsluna og nú sé hægt að horfa til framtíðar. Fram hefur komið að ríflega 50 milljónir króna, sem eru sóknargjöld meðlima sem skráðu sig í trúfélagið, hafi legið inn á reikningi félagsins. Ágúst Arnar segir aðspurður að hann viti ekki „nákvæmlega“ hversu há upphæðin var sem greidd var né hversu margir fengu endurgreitt. Blaðamaður sagðist ekki þurfa nákvæma upphæð en fékk sama svar. Ágúst bætti því við að fagaðilar hefðu séð um framkvæmdina.

Mynd/Facebooksíða Zúista

Spurður hvort hægt væri að komast í samband við þá aðila sagði Ágúst að það væri ekki hægt. Félagið vildi halda þessum upplýsingum fyrir sig. Hann vildi heldur ekki svara því hversu miklir fjármunir væru nú eftir í félaginu. „Það er ekki búið að fara yfir fjárhaglega stöðu félagsins.“ Spurður hvort umsækjendurnir hafi verið nokkur hundruð eða nokkur þúsund sagðist Ágúst ekki vilja gefa það upp.

Það sem Ágúst vildi segja var að næstu skref yrði að kynna námsstyrki sem félagið hyggst setja á fót. Þá myndu endurgreiðslur halda áfram á næsta ári. Í undirbúningi væri einnig að leggja góðum málefnum lið en félagið gaf Barnaspítala Hringsins 1,1 milljón króna í gjöf á dögunum.

Fram kemur á heimasíðu félagsins að frestur til að sækja um endurgreiðslu hafi runnið út í gær. Á það er bent að endurgreiðslan sé tekjuskattskyld.

Yfirlýsing frá Zuism

Trúfélagið Zuism hefur endurgreitt meðlimum sínum að fullu sóknargjöld þeirra fyrir síðustu tvö ár. Allir meðlimir, sem sóttu um endurgreiðsluna, fengu greiddar 19.976 kr.

„Meðlimum var einnig boðið að láta sóknargjöldin renna til góðgerðarmála og voru í kringum 7% sem völdu þann möguleika. Félagið hefur nú í framhaldinu sett til hliðar um það bil 2,5 milljónir kr. sem verður ráðstafað til góðgerðamála. Félagið mun uppfæra þá meðlimi, sem völdu að gefa sóknargjöldin sín, um það hvert þeir fjármunir koma til með að renna,“ segir Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism.

Ágúst segir að Zúistar stefni á að halda áfram að endurgreiða sóknargjöldin á næsta ári og halda áfram að styrkja góð málefni.
„Einnig mun Zuism bjóða meðlimum sínum upp á náms- og bókastyrki á komandi ári. Við hvetjum fólk til að skrá sig í Zuism og eru leiðbeiningar inn á Zuism.is/skraning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert