Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri félagsins EK 1923, hefur verið kærður til héraðssaksóknara vegna meintra ólögmætra þvingana og rangra sakargifta. Fyrst var greint frá þessu á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Kærendur eru Skúli Gunnar Sigfússon, sem oft er kenndur við Subway og viðskiptafélagar hans, Guðmundur Sigurðsson og Guðmundur Hjaltason, auk félaga í þeirra eigu. Telja kærendur að Sveinn Andri hafi reynt að afla þrotabúinu, sem greiði laun skiptastjóra, fjármuna með ólögmætum hætti og hafi af því beinan persónulegan ávinning.
„Eins og ég horfi á þetta eru þetta einhverskonar tilraunir til þess að hafa áhrif á störf skiptastjóra við uppgjör á þessu þrotabúi,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is.
Hann hafði áður kært Skúla og félaga til héraðssaksóknara fyrir meinta ólögmæta ráðstöfun fjármuna úr félaginu EK 1923. „Þær kærur hafa farið í gegnum forathugunarferli hjá héraðssaksóknara og eru orðnar að sakamáli og það kemur bara í ljós hver niðurstaðan verður þar, en að kalla þetta útbreiðslu rangra sakargifta er algjörlega út úr öllu korti,“ segir Sveinn Andri.
Hann segir að hann sem skiptastjóri gæti hagsmuna kröfuhafa þrotabúsins og reyni að sjá til þess að eignir komi upp í kröfur þeirra. Kröfuhafar hafi allt frá því að hann var skipaður skiptastjóri haft samband við sig og tjáð sér að þá grunaði að eigandi félagsins hefði fært eignir út úr félaginu.
„Þetta er bara sannleikurinn, þetta var erindi kröfuhafanna við mig. Þá grunaði að eigandi félagsins hefði strípað það innan frá,“ segir Sveinn Andri, sem segist hafa fullan stuðning nær allra kröfuhafa búsins.
„Það er einn kröfuhafi sem hefur mætt á skiptafundi sem hefur ekki verið sammála mér, en hann er jafnframt lögmaður Skúla. Allir aðrir hafa lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir,“ segir Sveinn.
Hann segist í árslok í fyrra hafa viljað gefa Skúla og félögum hans tækifæri til þess að forða sér frá sakamáli með því að endurgreiða tæpar 50 milljónir til þrotabúsins.
„Að kalla þetta þvinganir er gjörsamlega út úr korti. Þegar kvartað var til héraðsdóms þá var það talið að ég hefði verið of sveigjanlegur við viðkomandi og að ég hefði átt að leggja strax fram kæru, þannig að þarna er öllu heldur betur snúið á haus,“ segir Sveinn sem segist ekki hafa neinar áhyggjur af kærunni.
Þess ber þó að geta að úrskurðarnefnd Lögmannafélagsins segir í úrskurði sínum frá 9. október sl. að í þeim bréfum sem Sveinn Andri sem skiptastjóri sendi á kærendur hafi falist ótilhlýðileg þvingun gagnvart þeim í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna og að aðfinnsluvert hafi verið af hálfu Sveins Andra að setja fram ítrekaðar kröfur um greiðslu skuldbindinga, sem ljóst var að kærendur féllust ekki á og vildu verja fyrir dómstólum.
„Ég hlýt auðvitað að skoða það alvarlega að gera alvarlegar athugasemdir á réttum vettvangi við þessar tilraunir viðkomandi og lögmanna þeirra til þess að trufla störf skiptastjóra. Skiptastjóri er opinber sýslunarmaður, skipaður af héraðsdómi og hefur mikil völd, rannsóknarvöld þegar hann er að „liquidera“ búið. Ég lít svo á að þarna séu kærði og hans lögmenn að grafa undan störfum opinbers sýslunarmanns í því skyni að ná fram einhverskonar fjárhagslegu hagsmunum.“
Skúli Gunnar Sigfússon segir í samtali við mbl.is að kæran byggist á því mati lögmanna hans, að Sveinn Andri hafi gerst brotlegur við lög í starfi sínu sem skiptastjóri þrotabúsins.
Í kærunni segir að það sé skoðun kærenda að Sveinn Andri hafi nýtt stöðu sína sem skiptastjóri og opinber sýslunarmaður til að reyna að þvinga Skúla og félaga til að greiða þrotabúinu einkaréttarlegar kröfur, sem Sveinn Andri hafi vitað að væru umdeildar og bæri að leiða til lykta fyrir dómstólum. Þá hafi Sveinn Andri sem skiptastjóri persónulega hagsmuni af því að fjármunir innheimtist í þrotabúið.
Skúli Gunnar segir þær ásakanir sem Sveinn Andri hefur eftir kröfuhöfum, um að félagið hafi verið hreinsað innan frá, ekki eiga við nokkur rök að styðjast.
„Það eru bara svo fáránlegar ásakanir. Ég er með gögn sem sýna að ég setti vel á annað hundrað milljónir inn í félagið í peningum, á þessum tíma sem hann segir að ég hafi verið að strípa félagið. Hann er dálítið eins og Donald Trump, setur fram einhverjar staðhæfingar sem er enginn fótur fyrir og þá bara á fólk að trúa þeim,“ segir Skúli.
Hann segir Svein Andra hafa mikla persónulega hagsmuni af því að sem mest fé komi inn í þrotabúið. „Ég get byrjað á að segja þér það að frá nóvember á síðasta ári og fram í mars, þá var hann búinn að hirða um 30 milljónir, sem hann persónulega var búinn að taka í þóknun út úr þessu litla þrotabúi,“ segir Skúli.
Skjal um yfirlit skiptakostnaðar miðað við 24. mars síðastliðinn, sem mbl.is hefur undir höndum, staðfestir þetta, en þar segir að skiptaþóknun sé 26.046.250 kr. og renna þeir fjármunir til Sveins Andra sem skiptastjóra. Heildarskiptakostnaður var 31.779.843 kr.
„Núna er hann líklegast kominn í 40-50 milljónir. Hann mun fara langleiðina með að ryksuga allt út úr þessu þrotabúi. Það er skiptafundur núna 1. desember held ég, þá þarf hann að upplýsa hvað hann er kominn í þá. Ég spái því að hún sé allavega 40-50 milljónir,“ segir Skúli.
„Þetta eru helvíti góð laun. Það væri hægt að reka blaðamann á þessu í örugglega 3-4 ár, en þetta fékk hann upp í hendurnar og fær að fara fram með þessum hætti.“