Nú liggja um 100 einstaklingar inni á Landspítalanum sem lokið hafa meðferð og gera ekki annað en að bíða eftir því að komast af spítalanum. Um er að ræða aldraða einstaklinga sem ekki geta snúið aftur að óbreyttu heim og eru aðstæður þeirra óviðunandi. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í forstjórapistli sínum á vef Landspítalans í dag.
Síðustu vikur hafa verið þungar á Landspítalanum. Mikið álag er á bráðadeildum spítalans og talsverður innlagnaþungi, að sögn Páls. „Væru aðstæður á spítalanum með þeim hætti sem við helst vildum væri þetta ekki vandamál heldur eðlilegar sveiflur í starfseminni sem unnt væri að bregðast við. Svo er hins vegar ekki hjá okkur - nýting legurýma spítalans á bráðadeildum er yfirleitt um og yfir 100% svo þegar „eðlilegir“ toppar myndast í starfseminni getur staðan orðið alvarleg,“ segir Páll. Hann bendir á að gripið hafi verið til ýmissa úrræða sem gefist hafi vel, en ekki gangi nógu hratt að mæta sívaxandi þörf landsmanna fyrir hjúkrunarrými og því verði álagið á spítalann of mikið.
„Bleiki fíllinn í stofunni er þó alltaf sá sami og verður sífellt fyrirferðarmeiri,“ segir hann og vísar til þeirra aðstæðna sem hópur aldraðra einstaklinga á spítalanum er í.
„Það er þyngra en tárum taki að stór hluti þeirra kemst ekki á hjúkrunarheimili heldur lýkur sínum ævivegi hjá okkur á Landspítala við aðstæður sem ekki eru við hæfi. Á sama tíma bíða aðrir sjúklingar, ungir sem aldnir, eftir innlögn á spítalann. Þetta ástand er ekki neinum boðlegt og það er umhugsunarefni að það var algerlega fyrirsjáanlegt. Það kemur varla nokkrum manni á óvart að þjóðin, þótt ung sé, eldist og hraðast fjölgar þeim sem háum aldri ná og þurfa þjónustu í samræmi við það.“
Páll segir uppbyggingu hjúkrunarheimila og annarrar þjónustu við eldra fólk á Íslandi hafa verið of hæga og að allir finni fyrir því; sjúklingar, ættingjar og starfsfólk. „Þetta er mál sem ný stjórnvöld verða að setja í algeran forgang. Það liggur lífið við.“