Borgarstjóri Reykjavíkur er ekki ábyrgur fyrir þeim skólpleka sem var vegna bilunar í skólpdælistöðinni við Faxaskjól, en vegna hans var miklu magni skólps veitt í sjóinn án hreinsunar. Þetta kemur fram í svari borgarlögmanns við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina sem kynnt var í borgarráði nýlega.
Segir í svari borgarlögmanns að ábyrgð borgarstjóra á ábyrgð veitufyrirtækja í eigu borgarinnar og heilbrigðisnefnd geti einungis verið pólitísk sem oddviti meirihlutans í Reykjavík, en að hann beri ekki ábyrgð á ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi sem rekja má til Orkuveitu Reykjavíkur, Veitna ohf. eða heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.
Í fyrirspurninni er bent á að borgarstjóri sé æðsti embættismaður borgarinnar og ein af stjórnsýslustofnunum borgarinnar sé heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Þá komi fram í eigendastefnu OR að leitast sé við að skýra hlutverk og ábyrgð eigendanna og tryggja þátttöku þeirra í ákvörðun um mikilvæg málefni og stefnu. OR er móðurfélag Veitna, en það félag rekur skólphreinsistöðina.
Í svarinu er vísað til þess að Orkuveitan sé sameignarfyrirtæki og sjálfstæður lögaðili. Borgarstjóri sitji ekki í stjórn Orkuveitunnar né gegni yfirmannsstöðu innan fyrirtækisins. „Ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi fyrirtækisins er því á ábyrgð sjálfstæðra stjórna og stjórnenda fyrirtækisins en ekki æðstu embættismanna sveitarstjórna eigenda Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í svarinu.
Aðeins sérstaklega stórar ákvarðanir eða stefnumarkandi eigi að fara beint á borð eiganda. „Samkvæmt 8. gr. eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur þurfa aðeins óvenjulegar og stefnumarkandi ákvarðanir, nýjar skuldbindingar fyrirtækisins sem fara yfir 5% af bókfærðu eigin fé þess og áform um virkjanir eða aðra nýtingu auðlinda, að hljóta samþykki eigenda. Af eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur verður því ekki leidd ábyrgð borgarstjóra á tjóni sem bilun í skólpdælistöðinni við Faxaskjól kann að hafa valdið eða hugsanlegri vanrækslu fyrirtækisins í tengslum við það.“
Svipaða sögu sé að segja um ábyrgð hans vegna dótturfélagsins Veitna, en þar séu ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi á ábyrgð sjálfstæðra stjórna og stjórnenda fyrirtækisins.
Í fyrirspurninni er einnig spurt um ábyrgð borgarstjóra á heilbrigðisnefndinni. Í svari borgarlögmanns segir að nefndin sé á ábyrgð borgarstjórnar en ekki borgarstjóra. Þá er tiltekið að heilbrigðisfulltrúar séu ráðnir af heilbrigðisnefndum og starfa í umboði nefndanna. „Heilbrigðisfulltrúar eru sjálfstæðir í starfi og bera einvörðungu ábyrgð gagnvart viðkomandi heilbrigðisnefnd. Borgarstjóri og aðrir stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa því ekki boðvald yfir heilbrigðisfulltrúum þegar kemur að faglegu starfi þeirra.“