Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni hefst ekki fyrr en á miðvikudaginn, en fyrr í morgun hafði verið sagt frá því að málið hæfist í dag. Þetta staðfestir saksóknari málsins við mbl.is. Samkvæmt upplýsingum á vef Héraðsdóms Reykjavíkur átti málið að hefjast í dag og standa fram á fimmtudag.
Nokkur fjöldi fjölmiðlamanna var mættur í héraðsdóm í morgun en hvarf frá þegar ljóst var að um mistök var að ræða í dagskrá dómsins.
Margrét Rögnvaldsdóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir að málið hafi ekki átt að hefjast í dag heldur á miðvikudaginn og því sé ekki um frestun að ræða. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin standi í tvo daga, miðvikudag og fimmtudag.
Sveinn er ákærður fyrir stófellda líkamsárás í Mosfellsdal 7. júní sl. Sá sem varð fyrir árásinni hét Arnar Jónsson Aspar, en hann lést í kjölfar hennar.
Arnar er sagður hafa kafnað vegna mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem olli banvænni stöðukæfingu sem má rekja til einkenna æsingsóráðs vegna þvingaðrar frambeygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arnari í.
Sveinn er ekki ákærður fyrir manndráp, en í ákærunni leiðir áverkalýsingin til lýsingar á banameini Arnars sem er sögð köfnun vegna þeirrar stöðu sem Arnar var þvingaður í af Sveini.
Sveinn er sagður hafa haldið höndum Arnars fyrir aftan bak þar sem Arnar lá á maganum og tekið hann hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa. Eru afleiðingar þessarar árásar taldar hafa valdið andláti Arnars.
Sveinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að árásin átti sér stað.