Hæstiréttur staðfesti í dag að nígerískur karlmaður skuli áfram sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um peningaþvætti. Varnaraðili hafði kært úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá því fyrir helgi en þar segir að manninum sé gert að sæta gæsluvarðhaldi til 14. desember.
Alls hefur héraðssaksóknari gefið út ákæru á hendur fjórum vegna málsins. Mál nígeríska karlmannsins var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 13. október en saksóknari gaf út ákæru á hendur honum 20. september vegna peningaþvættis í febrúar árið 2016.
Maðurinn er ákærður fyrir að hafa skipulagt og gefið fyrirmæli um peningaþvætti þegar meðákærðu hafi tekið við 31.600.000 krónum af ótilgreindum aðila, geymt fjármunina á bankareikningum, nýtt að hluta, flutt að hluta, sent að hluta til Ítalíu og millifært 20.500.000 krónur af umræddu fé á bankareikning félags í Hong Kong.
Þetta hafi verið gert þó vitað hafi verið mátt að um væri að ræða ólöglega fengið fé, en um hafi verið að ræða fé sem ótilgreindur aðili hafi komist yfir með fjársvikum í tengslum við viðskipti félaga í Suður-Kóreu og víðar.
Í greinagerð héraðssaksóknara segir að ákærði hafi skipulagt og gefið meðákærðu fyrirmæli um peningaþvættið eftir að hann kom til landsins 2. febrúar í fyrra og brotin hafi þannig verið framin að hans undirlagi.
Ákærði var framseldur til Íslands frá Ítalíu og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 17. ágúst.
Héraðssaksóknari telji að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að tryggja návist ákærða við meðferð málsins fyrir dómi. Hann eigi eiginkonu og barn sem búi í Ghana og í Nígeríu. Líta verði til þess að hann hafi ekki komið sjálfviljugur til landsins heldur eftir framsal í fylgd lögreglufulltrúa. Þá sé ákærði erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hefur við landið og því sé veruleg hætta á að hann reyni að koma sér undan saksókn gangi hann laus.
Aðalmeðferð í málinu hefst 7. desember.