Upp á síðkastið hefur verið fjallað um ákveðnar gerðir snjallúra, sem ætluð eru börnum. Úrin eru nettengd tæki með staðsetningarbúnað og gera foreldrum kleift að fylgjast með ferðum barna sinna.
Sérstaklega var mælt með notkun þessara snjallúra í færslu á facebooksíðu embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum í liðinni viku, í kjölfar þess að ungur drengur í Reykjanesbæ týndist.
Við fyrstu sýn virðast gps-úr sem þessi geta gert sitt gagn en þó hafa þau verið umdeild. Til að mynda hefur sala slíkra úra verið bönnuð í Þýskalandi, þar sem þau þykja brjóta í bága við lög og reglur um friðhelgi einkalífs og eftirlit með borgurum. Þá gerði Persónuvernd athugasemdir við færslu lögreglustjórans á Suðurnesjum og kom því á framfæri að töluverð hætta væri á því að hakkarar gætu brotist inn í snjallúr sem þessi, að því er fram kemur í umfjöllun um snjallúr í Morgunblaðinu í dag.