Orkuveitan hefur keypt aftur höfuðstöðvar sínar á Bæjarhálsi 1 af fasteignafélaginu Fossi. Kaupverð er fimm og hálfur milljarður en um þriðjungur húsanna er stórskemmdur af raka.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni. Þar segir að frá því að rakaskemmdirnar komu í ljósi hafi OR og eigendur leitað bestu lausna en vesturhúsið, sem er skemmt af raka, hefur staðið autt um nokkurra mánaða skeið.
Niðurstaða viðræðna OR og Foss var sú að OR fær að nýju fullt forræði yfir fasteignunum við Bæjarháls 1. OR kaupir allt hlutafé fasteignafélagsins á 1,4 milljarða króna og tekur yfir lán sem á félaginu hvíla sem nema 4,1 milljarði.
„Að vel athuguðu máli varð það niðurstaða okkar að reyna að eignast húsin aftur. Verkefnið er snúið. Margir kostir eru til skoðunar og með þessu samkomulagi er valið okkar,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, vegna málsins.