Heilbrigðiseftirlitið vaktar strandlengjuna betur

Dælustöð Orkuveitu Reykjavíkur við Faxaskjól.
Dælustöð Orkuveitu Reykjavíkur við Faxaskjól. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mun vakta strandlengjuna við og í nágrenni Faxaskjóls oftar en ella meðan á viðgerð Veitna stendur í skólpdælustöðinni Faxaskjóli dagana 20. til 27. nóvember samkvæmt áætlun. Niðurstöður mælinga eru birtar á vef Heilbrigðiseftirlitsins eftir því sem þær berast. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Á hverri sekúndu dælast út um 700 lítrar af óhreinsuðu skólpi meðan á viðgerðum stendur. Þetta er svipað magn og fór út í sjó í sumar þegar dælustöðin bilaði, að sögn Ólafar Snæhólm, upplýsingafulltrúa Veitna. Hún minnir fólk einnig á að henda ekki rusli í klósettið heldur í rusl því það endar beint út í sjó. 

Heilbrigðiseftirlitið bendir á að dæling skólps í sjó við Faxaskjól og viðvaranir um að fara ekki í sjóinn þar hefur ekki áhrif á skipulagt útivistarvæði og sjósundstað við Nauthólsvík vegna fjarlægðar og sjávarstrauma. Hér má sjá afstöðumynd af svæðinu.

Heilbrigðiseftirlitið bendir einnig á að strandlengjan við Reykjavík er vöktuð reglubundið og ástand sjávar mælist gott. Hins vegar er strandlengjan ekki almennur baðstaður skv. skilgreiningu nema þar sem slíkt er skipulagt sérstaklega eins og á Kjalarnesi og í Nauthólsvík.

 Hægt er að kynna sér vöktunina og allar niðurstöður mælinga allt frá árinu 2003.

Upplýsingar um viðgerð Veitna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert