„Þetta er frægasta Íslandskortið og það verðmætasta,“ segir Viktor Smári Sæmundsson forvörður um Íslandskort frá árinu 1595 sem er boðið falt fyrir 25 til 30 þúsund sænskar krónur eða tæplega 400 þúsund krónur hjá sænska uppboðshúsinu, Stockholms Auktionsverk.
Kortið teiknaði Abraham Ortelius eftir teikningum Guðbrands biskups Þorlákssonar. Kortagerðarmannaðurinn og útgefandinn Ortelius var sá fyrsti til að gefa út kortaatlas með stöðluðum kortum árið 1570. Upphaflega kortið er gert í Damnörku og fyrsta útgáfan líklega prentuð í Hollandi en 500 eintök voru gerð af því. Þetta Íslandskort er oft nefnt Guðbrandskort.
„Guðbrandur lét mæla alla Vestfirði og Norðvesturland og það landsvæði er nákvæmast. Lengi vel var þetta besta og ítarlegasta kortið sem var til af Íslandi. Það gefur nokkuð góða mynd af landinu en ekki alveg öllu. Til dæmis er Vatnajökull ekki til og hálendið er skáldskapur,“ segir Viktor Smári.
Skrímslamyndirnar á kortinu, bæði af dýrum á sjó og landi, eru þekktar. Viktor bendir á að textar við ákveðin örnefni á landinu gáfu lengir vel ranga mynd af landinu sem lifði fram á 18. öld. Hann nefnir sem dæmi að á Reykjanesi er merktur inn hver sem breytir hvítri ull í svarta og svatri ull í hvíta.
Viktor telur uppgefið verð á kortinu vera nokkuð undir verðmati hér á landi. Algengt er að sambærileg kort seljist á um 6 til 7 hundruð þúsund krónur. Þetta eintak lítur út fyrir að vera vel með farið og hægt er að sjá kjölbindinguna en þessi kort voru yfirleitt bundin inn í bækur. Liturinn virðist einnig vera í góðu lagi, það er að segja það er ekki mikið upplitað.
„Ef ég væri að safna kortum myndi ég bjóða í þetta,“ segir Viktor spurður hvort hann ætli að bjóða í kortið en hann áréttar að hann sé ekki safnari þrátt fyrir að vera forvörður.
Ásett verð á Íslandskorti sem var boðið upp í London fyrir sjö árum var um milljón íslenskra króna, að sögn Viktors. Það kort var reyndar mun meira og betur skreytt. Honum er reyndar ekki kunnugt um hvort kortið hafi selst á þá upphæð eða ekki.