Grensásvegur 12 skoðaður enn frekar

Samiðn lítur svo á að Reykjavíkurborg hafi skyldum að gegna …
Samiðn lítur svo á að Reykjavíkurborg hafi skyldum að gegna sem kaupandi íbúðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Byggingarvinnustaðurinn við Grensásveg 12 er til skoðunar hjá Samiðn, sambandi iðnfélaga, vegna gruns um að brotið hafi verið á starfsmönnum hvað launakjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi varðar. Um er að ræða erlenda starfsmenn.

Vinnueftirlitið bannaði alla vinnu á vinnustaðnum í síðustu viku eftir að í ljós kom að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur. Þá hafði Vinnueftirlitinu ekki verið tilkynnt um verkið, sem er grundvallaratriði þegar unnið er að byggingu stærri mannvirkja, eins og í þessu tilfelli.

„Það er búið að fara tvisvar í vinnustaðaferð á þennan vinnustað, skrá starfsmennina og kalla eftir launaupplýsingum og réttindum. Það hefur ekki verið fullnægjandi, þannig að í síðustu viku sendi ég erindi á fyrirtækið, byggingastjórann og Reykjavíkurborg, sem er verkkaupi þarna, þar sem ég óskaði eftir því að fá allar upplýsingar,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar. Miðað við þær upplýsingar sem til staðar eru segir Þorbjörn vert að skoða vinnustaðinn enn frekar.

„Ég gaf þeim sjö daga til þess að bregðast við. Ef ekkert hefur komið í lok þessarar viku þá munum við grípa til einhverra aðgerða. Við munum fylgja þessu alveg til botns. Það er fyrsta skrefið að kalla eftir þessum upplýsingum. Þetta er komið á annað stig þegar farið er að senda formleg erindi.“

Telja Reykjavíkurborg hafa skyldum að gegna

Grens­ás­veg­ur 12 er at­vinnu­hús­næði sem verið er að breyta að hluta til í íbúðar­hús­næði og hef­ur Reykja­vík­ur­borg gert kaup­samn­ing um kaup á 24 íbúðum í hús­inu. Til stend­ur að þær verði af­hent­ar borg­inni 1. apríl 2018. Verða þær svo leigðar til um­sækj­enda hjá Fé­lags­bú­stöðum. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um sem mbl.is fékk frá Reykjavíkurborg í gær hefur borgin enga aðkomu að verkefninu aðra en þá að búið er að gera kaupsamning um íbúðirnar sem greiddar verða við afhendingu. „Reykjavíkurborg hefur enga aðkomu að verkefninu eða vinnuaðstæðum á staðnum,“ sagði í svari borgarinnar til mbl.is.

Þorbjörn segist engu að síður líta svo á að Reykjavíkurborg sé verkkaupi í þessu tilfelli. „Þeir munu kaupa þessa afurð, svo ég lít svo á þeir hafi ákveðnum skyldum að gegna. Þeir eru að kaupa húsið með þeim breytingum sem standa nú yfir, við ætlum að líta þannig á að Reykjavíkurborg hafi ákveðnar skyldur.“

Mál vinnustaðarins á Grensásvegi 12 var komið inn á borð til Samiðnar áður en Vinnueftirlitið lokaði vinnustaðnum, en Samiðn ætlar engu að síður að halda því til streitu að fá upplýsingarnar sem óskað var eftir. Það geti þó orðið erfitt að hafa uppi á starfsmönnunum.

„Í ljósi þess að búið er að loka vinnustaðnum þá er Vinnueftirlitið búið að taka ómakið af okkur að ákveðnu leyti, en við munum beita öllum þeim aðgerðum sem við getum,“ segir Þorbjörn.“

Grensásvegur 12 skar sig úr

Hinn 19. september síðastliðinn hóf Samiðn skipulagt átak sem felst í að fara í heimsóknir á vinnustaði og kalla eftir upplýsingum. „Við erum að gera þetta dálítið öðruvísi en hefur verið gert fram að þessu. Vinnustaðaeftirlitið hefur falist í því að tékka á skráningu og slíku, sem er gott út af fyrir sig, en núna tökum við annað skref í viðbót og óskum eftir upplýsingum um launakjör og réttindi. Þá förum við til stjórnenda,“ útskýrir Þorbjörn.

Tíu fyrirtæki hafa verið heimsótt fram að þessu, en á bak við þau er mikill fjöldi starfsmanna. Þorbjörn segir ýmislegt hafa komið í ljós í þessum eftirlitsferðum, en svo virðist vera að stærri fyrirtæki reyni að hafa hlutina í lagi. Það er hans tilfinning að stærri fyrirtæki hafi meiri skilning á því að byggja upp stöðugan starfsmannahóp. Þorbjörn segir Grensásveg 12 hafa skorið sig úr hópi þeirra fyrirtækja sem heimsótt hafa verið hvað aðbúnað varðar.

Hann segir þó algengt að erlendir starfsmenn fái greidd lægri laun en íslenskir, en flest stærri fyrirtækjanna reyni að halda sig innan kjarasamninga. Þá sé misjafnt hvað fyrirtæki ganga langt í að láta starfsfólk greiða fyrir gistingu og annað. Sum gangi ansi langt á meðan önnur eru sanngjarnari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert