Sveinn Gestur Tryggvason, sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar, sagði í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að hann hefði ekki veitt Arnari neina áverka heldur hefði Jón Trausti Lúthersson, sem var einn þeirra sem var á staðnum, veitt þá. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafði Sveinn ekki greint frá því að Jón Trausti hefði veitt Arnari áverka.
Sveinn er sá eini sem er ákærður í málinu, en hann fór ásamt Jóni Trausta og nokkrum öðrum upp í Mosfellsdal að heimili Arnars umræddan dag.
Við skýrslutöku yfir Sveini við aðalmeðferð málsins í dag sagði hann að tilgangur ferðarinnar hafi verið að sækja verkfæri sem hann ætti en voru í vörslu Arnars. Sagði hann að Arnar hafi komið til dyra, en verið undir áhrifum og æstur eftir því. „Ég hafði ekki séð hann svona áður,“ sagði Sveinn.
Segir hann Arnar svo aðeins hafa róast, en þegar þeir hafi verið komnir út hafi hann aftur æst sig og sett sig í ógnandi stöðu. „Hann var eins og kúreki að ná í eitthvað,“ sagði Sveinn og bætti við að hann hefði spurt Arnar hvort hann væri vopnaður en fengið neitandi svar.
Sveinn sagði að næst hafi Arnar byrjað að hrinda honum og slá til sín. „Mér brá og vildi komast úr þessum aðstæðum,“ sagði hann. Tveir bræður sem voru með Sveini í þessari ferð hafi reynt að grípa Arnar á þessum tímapunkti en hann slitið sig frá þeim og fallið í mölinni við húsið. Sagði Sveinn að sér hafi brugðið í þessum aðstæðum og viljað komast úr þeim.
Ekki er deilt um það í málinu að Arnar hafi sótt kúst og gert atlögu að bíl mannanna, en í framburði Sveins lýsti hann atlögunni sem mjög ágengri sem hafi endað með að Arnar braut rúðu bílsins sem Sveinn var í með kústinum. Þeir hafi svo keyrt niður hlaðið við heimili Arnars og ætlað í burtu, en Arnar komið á eftir þeim niður brekkuna með járnprik.
Framburður Sveins er á skjön við það sem hann sagði í fyrri skýrslutöku hjá lögreglu og framburð barnsmóður Arnars og nágranna sem var á staðnum.
Sagði Sveinn að Jón Trausti hefði farið upp brekkuna og mætt Arnari og þeir tekist mikið á. Jón Trausti hafi endað ofan á Arnari eftir talsverð átök þar sem hann hafi meðal annars lamið hann með neyðarhamri og Sveinn ekki viljað sjá hann meiða Arnar meira, enda hafi þeir verið vinir. Áður en hann fór að Arnari hringdi Sveinn hins vegar í lögregluna og var upptaka af því símtali spiluð í dómsalnum.
Sagði hann að Arnar hafi verið alblóðugur þegar hann kom að þeim Jóni Trausta. Í símtalinu heyrist Sveinn segja við Jón Trausta að „choka hann út“ (innsk. blaðamanns: svæfa hann með hengingartaki) og svaraði Sveinn því til að hann hefði viljað fá Arnar rólegan þangað til lögreglan mætti á staðinn. Svo hafi hann sagt að hann myndi taka við „chokinu“, en Sveini var umtalað um að Arnar og Jón Trausti hafi ekki verið góðir vinir og hann hafi viljað koma í veg fyrir að hann myndi gera meira við Arnar. Sveinn hafi svo eftir þetta haldið höndum Arnars fyrir aftan bak þangað til hann hafi áttað sig á því að hann andaði ekki og þá hafið endurlífgun.
Í símtalinu við Neyðarlínuna heyrist Sveinn einnig öskra fúkyrði á Arnar þar sem hann væntanlega liggur á jörðinni. Sagði hann fyrir dómi að hann hafi ekki vitað á þessum tíma í hvernig ástandi Arnar var. „Sé rosalega mikið eftir því sem ég sagði.“
Verjandi Sveins spurði hann einnig hvort hann væri fíkniefnaneytandi eða handrukkari og svaraði Sveinn því neitandi þótt hann hafi fiktað við fíkniefni á einhverjum tímapunktum. Á þeim tímapunkti sem þetta kom upp hafi hann verið búinn að koma upp garðaþjónustu og nýlega stofnað líkamsræktarstöð. Hann hafi einnig haft þau framtíðarplön að fara í trúarbragðafræðslu og guðfræðinám. „Ég bjóst aldrei við að vera á þessum stað,“ sagði hann.
Spurður um misræmið á milli skýrslutökunnar hjá lögreglu og svo fyrir dómi varðandi þátt Jón Trausta, sem hann hafði áður sagt að hafi ekki lamið Arnar, sagði Sveinn að hann hafi búist við að Jón Trausti myndi sjálfur segja frá því eða að lögreglan myndi komast að þessu við rannsóknina. Hann hafi ekki viljað koma Jóni Trausta í meiri vandræði en þyrfti. „Ég sé eftir því,“ sagði hann.