Dómari í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni, vegna stórfelldrar líkamsárásar í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar, lokaði þinghaldi þegar réttarmeinafræðingur kom til að bera vitni í málinu.
Teknar hafa verið skýrslur af ákærða og vitnum í dag. Þegar óskað var eftir skýringum á lokuðu þinghaldi vísaði dómari til a-liðar 10. greinar laga um meðferð sakamála. Meginregla í sakamálum er að þinghald skuli háð í heyrandi hlóði. Dómari getur þó ákveðið, að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola, að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta, ef það er háð utan reglulegs þingstaðar, sakborningur er yngri en 18 ára eða hann telur það annars nauðsynlegt.
Í lögunum eru taldar upp nokkrar ástæður fyrir því að hægt sé að loka þinghaldinu og vísaði dómari til a-liðar sem ástæðu fyrir að loka núna.
„a. til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar.“