Sveinn Gestur Tryggvason, sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás í Mosfellsdal hinn 7. júní í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar, mætti í dómsal rétt í þessu í fylgt lögreglumanna. Aðalmeðferð málsins er hafin, en hún mun standa í dag og á morgun. Hefur Sveinn Gestur setið í gæsluvarðhaldi síðan málið kom upp.
Dagurinn hófst hjá dóminum með að fara í vettvangsferð í Mosfellsbæ þar sem meint brot átti sér stað. Á ellefta tímanum hófst svo aðalmeðferðin. Áætlað er að aðalmeðferðin standi í dag og á morgun.
Nokkur fjöldi aðstandenda bæði Sveins og Arnars er mættur í dómsalinn auk fjölmiðlafólks og voru ekki nógu mörg sæti fyrir alla viðstadda. Brugðust dómverðir við og bættu við stólum í salinn.
Fjölmiðlafólk var mætt fyrir utan dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn, en samkvæmt dagskrá á vef dómsins átti aðalmeðferðin að hefjast þá. Hins vegar var um ranga skráningu að ræða og hófst málið ekki fyrr en í dag.
Í ákæru málsins er Arnar sagður hafa kafnað vegna mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem olli banvænni stöðukæfingu sem má rekja til einkenna æsingsóráðs vegna þvingaðrar frambeygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arnari í eftir að hafa ráðist að honum.
Sveinn er ekki ákærður fyrir manndráp, en í ákærunni leiðir áverkalýsingin til lýsingar á banameini Arnars sem er sögð köfnun vegnar þeirrar stöðu sem Arnar var þvingaður í af Sveini.
Sveinn er sagður hafa haldið höndum Arnars fyrir aftan bak þar sem Arnar lá á maganum og tekið hann hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa. Eru afleiðingar þessar árásar taldar hafa valdið andláti Arnars.
Sveinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að árásin átti sér stað.
Er Sveinn ákærður með vísan til 2. málsgreinar 218. greinar almennra hegningarlaga, en hún tekur á stórfelldu líkams- eða heilsutjóni sem skapast af árás og ef brotaþoli hlýtur bana af.
„Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ.á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.]“
Í einkakröfu í málinu fara foreldrar Arnars fram á samtals 9 milljónir í miskabætur auk útfararkostnaðar. Fyrir hönd 15 ára dóttur Arnars er farið fram á 5 milljónir í miskabætur auk missis framfæranda til 18 ára aldurs. Fyrir hönd nýfæddrar dóttur Arnars er farið fram á rúmlega 18 milljónir og unnusta og barnsmóðir Arnars fer fram á tæplega 30 milljónir í miskabætur.